Kaupsamningum fjölgaði um 11 prósent á fasteignamarkaði árið 2013, miðað við árið á undan. Það er í takt við þróun sem hófst árið 2010 en samningum hefur fjölgað frá ári til árs frá þeim tíma, eftir mikla deyfð yfir fasteignamarkaði í kjölfar hrunsins í október 2008, einkum á árinu 2009. Þetta kemur fram í skýrslu um fasteignamat fyrir árið 2015. Heildarfasteignamat frístundabyggðar í landinu nemur 133 milljörðum samkvæmt fasteignamati fyrir árið 2015. Séu allar íbúðaeignir teknar saman nemur fasteignamat þeirra 3.540 milljörðum króna, sem er upphæð sem nemur tvöfaldri árlegri landsframleiðslu Íslands.
Virði atvinnuhúsnæðis nemur um 988 milljörðum króna, og eignir á jörðum eru metnar á 131 milljarða króna. Óbyggðar lóðir og lönd eru metnar á 95 milljarða króna.
Fasteignamat hækkaði um 7 prósent milli ára, þar af mest á höfuðborgarsvæðinu, eða um 9,1 prósent.