Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra hefur lagt fram frumvarp sem mun gera Íslendingum kleift að leita heilbrigðisþjónustu í öðrum ríkjum innan EES. Frumvarpið er tilskipun frá Evrópusambandinu og megintilgangurinn er að tryggja réttindi sjúklinga um heilbrigðisþjónustu yfir landamæri, og jafnframt að auðvelda viðurkenningu á lyfseðlum sem eru gefnir út í öðrum aðildarríkjum.
Ef frumvarpið verður samþykkt munu sjúkratryggðir hér á landi geta sótt heilbrigðisþjónustu annars staðar í Evrópu og fengið endurgreiddan kostnað við það, að því marki sem sjúkratryggingar á Íslandi greiða fyrir sambærilega þjónustu hér á landi. Meginreglan verður sú að ekki sé gerð krafa um að sótt sé um samþykki fyrirfram. Hvorki velferðarráðuneytið né fjármálaráðuneytið segjast gera ráð fyrir því að margir muni nýta sér þetta.
„Markmið tilskipunarinnar er að greiða fyrir aðgengi að öruggri hágæðaheilbrigðisþjónustu yfir landamæri, tryggja frjálst flæði sjúklinga innan sambandsins og stuðla að samvinnu um heilbrigðisþjónustu á milli aðildarríkja, að teknu tilliti til valdheimilda aðildarríkjanna til að skipuleggja og veita sína eigin heilbrigðisþjónustu,“ segir í greinargerð með frumvarpinu. Ætlunin er ekki að hvetja sjúklinga til að leita sér meðferða erlendis heldur aðeins að „tryggja rétt þeirra til frjálsrar farar milli aðildarríkja til að sækja sér heilbrigðisþjónustu með þeim takmörkunum sem settar eru í hverju ríki fyrir sig.“
Frumvarpið tekur þó ekki til langtímaumönnun aldraðra, heimahjúkrun eða aðstoð í þjónustuíbúðum. Tilskipunin gildir ekki heldur um líffæraígræðslur eða bólusetningar gegn smitsjúkdómum. Þá er í frumvarpinu skilgreint hvað telst vera alþjóðlega viðurkennd læknismeðferð
Evrópudómstóllinn hefur viðurkennt ýmis réttindi innan Evrópusambandsins sem varða heilbirgðisþjónustu, einkum um endurgreiðslu fyrir heilbrigðisþjónustu sem er veitt í öðru aðildarríki en því sem fólk er búsett og sjúkratryggt í. „Evrópudómstóllinn hefur staðfest að hvorki sérstakt eðli heilbrigðisþjónustu né hvernig hún er skipulögð eða fjármögnuð geti orðið til þess að heilbrigðisþjónusta verði undanþegin grundvallarreglunni um frelsi til að veita þjónustu innan sambandsins. Ríkjum er þó heimilt að takmarka endurgreiðslu kostnaðar vegna heilbrigðisþjónustu yfir landamæri á grundvelli almannahagsmuna.“