Íslendingar eyddu samtals 6,7 prósent meiru með því að nota Visa kreditkort sín í júlí 2015 en þeir gerðu í sama mánuði árið áður. Eyðsla þeirra innanlands jókst um 4,7 prósent en mesta aukningin var erlendis, þar sem velta íslenskra Visakortaeigenda jókst um 16,9 prósent á milli ára. Því er ljóst að einkaneysla Íslendinga, bæði innanlands og sérstaklega erlendis, er að aukast hratt. Þetta kemur fram í Valitor vísitölunni fyrir júlí 2015, sem sýnir breytingar á notkun íslenskra Vísa kreditkorta.
Það vekur athygli að þessi aukning á sér stað þrátt fyrir að eyðsla á bensínstöðvum og í eldsneyti hafi dregist saman um 8,7 prósent, en eldsneytiskostnaður er stór hluti af daglegum útgjöldum íslenskra heimila. Ástæðan fyrir þeim samdrætti er hratt fallandi heimsmarkaðsverð á olíu, en það hefur lækkað um 58 prósent frá því í júní 2014.
Íslendingar hafa aukið áfengiskaup sín til muna, og keyptu 13,54 prósent meira af slíku í júlí 2015 en í sama mánuði árið áður. Þá hefur eyðsla þeirra í matvöru- og stórverslunum aukist um 5,3 prósent á milli ára. Samtals jókst eyðsla Íslendinga í matvöru, bensín og vín um 1,2 prósent.
Velturtölurnar breyttust nokkuð frá því að Valitor vísitalan var síðast birt, en þá sýndi hún breytingar milli júnímánaða 2014 og 2015. Þá hafði heildarvelta reyndar aukist um svipað hlutfall, 6,5 prósent, en Íslendingar eyddu 1,2 prósentum minna í matvöru, bensín og vín í júní 2015 en þeir gerðu í sama mánuði árið áður.