Engin atvinnugrein á Íslandi fékk jákvæða einkunn þegar tryggð viðskiptavina var mæld í 20 atvinnugreinum meðal 75 fyrirtækja. Jafnframt vilja Íslendingar síður mæla með þjónustu eða vörum íslenskra fyrirækja í ár miðað við síðasta ár í 16 af 20 atvinnugreinum. Þetta er niðurstaða könnunar MMR á meðmælavísitölu íslenskra fyrirtækja sem birt var í dag.
Vísitalan mælir tryggð viðskiptavina við þjónustufyrirtæki og vörur framleiðslufyrirtækja. Dæmi um spurningar í slíkri könnun er til dæmis „Mundir þú mæla með þjónustunni?“ Engin atvinnugrein sem MMR kannaði í ár hlaut jákvæða einkunn á skalanum -100 til +100.
Aðeins fimm fyrirtæki af 75 hlutu jákvæða meðmælavísitölu sem þýðir að viðskiptavinir 93 prósent fyrirtækjanna sem voru könnuð voru tilbúin til að mæla með þjónustu fyrirtækisins eða vöru sem það framleiðir. Í frétt á vef MMR segir að þetta sé áhyggjuefni fyrir íslensk fyrirtæki því rannsóknir sýna að jákvæð umfjöllun viðskiptavina hefur mest áhrif á öflun nýrra viðskiptavina.
Þær atvinnugreinar sem kannaðar voru eru eftirfarandi: áskriftarþjónusta, bankar og sparisjóðir, lánastofnanir, tryggingafélög, bifreiðaskoðun, bifreiðaumboð, byggingavöruverslanir, matvöruverslanir, lyfjaverslanir, önnur verslun, fjarskiptaþjónusta, greiðslukortaþjónusta, upplýsingaveitur, vefþjónustur, flugfélög, olíufélög, öryggisfyrirtæki, almenningsþjónusta, rafveitur og verslunarmiðstöðvar.