Íslensk málnefnd hefur skrifað Einari K Guðfinnssyni, forseta Alþingis, bréf í tilefni þess að Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar, skilaði Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra skýrslu á ensku. Skýrslunni, sem fjallaði um endurbætur á íslenska peningakerfinu, var skilað til forsætisráðherra í morgun.
Í bréfi sem málnefndin sendi til fjölmiðla í dag segir að hún telji "það óhæfu að formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis skuli rita forsætisráðherra Íslands skýrslu á ensku. Samkvæmt 8. grein laga nr. 61 frá 7. júní 2011 um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls er íslenska mál Alþingis, dómstóla og stjórnvalda, jafnt ríkis sem sveitafélaga. Störf Alþingis og Stjórnarráðsins skulu því fara fram á íslensku, þar með talin ritun skýrslu til notkunar innan þessara stofnana. Ritun umræddrar skýrslu á ensku fer augljóslega á svig við ákvæði þessara laga". Hægt er að lesa bréfið í heild sinni hér.
Íslensk málnefnd starfar eftir lögum um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls. Hlutverk hennar er að veita stjórnvöldum ráðgjöf um málefni íslenskrar tungu. Menntamálaráðherra skipar Íslenska málnefnd og er skipunartími nefndarinnar fjögur ár. Í Íslenskri málnefnd eiga sæti 16 einstaklingar.
Skýrsla um endurbætur á íslensku peningakerfi
Í skýrslunni, sem var unnin að beiðni forsætisráðherra, kemur meðal annars fram að íslenskir viðskiptabankar hafi búið til mun meira af peningum en íslenska hagkerfið þurfi á að halda. Seðlabankanum hafi ekki tekist að hafa hemil á peningamyndun bankanna með hefðbundnum stjórntækjum sínum. Í skýrslunni eru skoðaðar endurbætur á peningakerfinu. Niðurstaða hennar er sú að svokallað þjóðpeningakerfi geti verið nothæfur grundvöllur að endurbótum á peningakerfinu.
Í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu er haft eftir Sigmundi Davíð að hann sé mjög ánægður með að skýrslan sé komin út. „Ég vænti þess að hún verði mikilvægt innlegg í þá nauðsynlegu umræðu sem framundan er, hér sem annars staðar, um peningamyndun og stjórnun peningamála.‟
Hægt er að lesa samantekt úr skýrslunni á íslensku hér.