Samtökin Pegida Iceland, sem segjast vera samtök fólks gegn „islamvæðingu“ vestrænna ríkja, birta áróður gegn flóttamönnum á Facebook síðu sinni. Meðal þess sem þar er haldið fram er að hælisleitendur streymi til Íslands „vegna auglýsinga íslenskra sósíalista í fjölmiðlum erlendis um að hér sé allt að fá“ og fjölmiðlar eru sakaðir um að „misnota alltaf myndir af börnum í fréttum þegar það er staðreynd að meirihluti þessara hælisleitenda eru karlmenn.“ Talað er um að flóttafólk í Evrópu séu „efnahagsflóttamenn“ og að „Evrópa eins og við höfum þekkt hana brátt liðin tíð.“
Kjarninn greindi frá því í janúar þegar Pegida síða fyrir Ísland var stofnuð, en Pegida samtökin rekja uppruna sinn til Þýskalands þar þau stóðu fyrir vikulegum mótmælum gegn áhrifum íslams í evrópskum löndum.
Við stofnun sögðust samtökin á Íslandi ætla að birta fréttatengt efni sem tengdist innreið og uppgangi íslams í Evrópu, efni sem þau segja að fjölmiðlar á Íslandi birti ekki vegna þöggunar og pólitísks rétttrúnaðar. Samtökin hafa undanfarið verið mjög virk á Facebook, en 3350 manns láta sér líka við síðuna.
Þessi mynd birtist án orða á síðunni í júlí, en hún er gömul og sýnir flóttafólk frá Albaníu koma til hafnar á Ítalíu árið 1991.
Sýnt fram á fölsun mynda
Í erlendum fjölmiðlum hefur verið bent á það undanfarna daga hvernig áróðurssíður af þessu tagi birta myndir sem eru í raun falsaðar til þess að sverta flóttafólk og innflytjendur. BBC birti til dæmis umfjöllun um mynd af manni sem var sagður hafa barist fyrir Íslamska ríkið í fyrra en væri nú kominn að landamærunum við Makedóníu þar sem hann þættist vera flóttamaður.