Á síðustu tólf mánuðum hefur heildarafli úr sjó aukist um tæp 255 þúsund tonn, eða um 23,5 prósent, ef miðað er við sama timabil ári fyrr. Aukninguna má nær eingöngu rekja til aukins uppsjávarafla en aukning hans í veiddum tonnum nemur 45,7 prósentum milli tímabilanna. Þar vegur aukning loðnuaflans mest. Frá september 2013 til ágúst 2014 voru veidd um 111 þúsund tonn af loðnu, samanborið við 354 þúsund tonn á sama tímabili frá 2014 til 2015.
Þetta kemur fram í nýjum tölum Hagstofunnar um afla íslenskra fiskiskipa. Í ágúst jókst fiskafli skipanna um 9,4 prósent frá ágúst 2014 og nam alls rúmlega 114 þúsund tonnum. Metið á föstu verðlagi jókst aflinn í ágúst um 5,5 prósent miðað við ágúst 2014.
Botnfiskaflinn nam tæpum 26.000 tonnum í ágúst sem er aukning um 27% samanborið við ágúst 2014, þar af nam þorskaflinn rúmum 12.000 tonnum sem jafngildir 8,1% aukningu á milli ára. Flatfiskaflinn nam rúmum 2.000 tonnum sem er tæpum 1.500 tonnum meiri afli en í ágúst 2014, munar þar mest um aukinn afla á grálúðu og skarkola. Afli uppsjávartegunda nam tæpum 85.000 tonnum og jókst um rúm 3% samanborið við ágúst 2014. Skel- og krabbadýraafli nam tæpum 1.200 tonnum í ágúst samanborið við tæp 900 tonn í ágúst 2014.