Kostnaðurinn við urðun pappírs og pappírsumbúða sem fer í orkutunnuna, þrátt fyrir blátunnu, grenndargáma og endurvinnslustöðvar, er um 50 milljónir á ári, að sögn Björns Hafsteins Halldórssonar, framkvæmdastjóra SORPU. Er þá miðað við að heimilisúrgangur innihaldi um 12,8 kíló af pappír og pappírsumbúðum, sem eru um 2.800 tonn á ári frá íbúum höfuðborgarsvæðisins. „Færi þessi pappír og pappi (2.800 tonn) allur í blátunnuna, grenndargáma eða endurvinnslustöðvar væri móttökugjaldið 0,3 krónur á kíló, eða 840 þúsund á ári,“ segir Björn. Móttökugjald SORPU fyrir urðun er í dag 18,02 krónur á kíló með virðisaukaskatti. SORPA er byggðasamlag í eigu sex sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu; Reykjavíkurborgar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Seltjarnarness, Mosfellsbæjar og Garðabæjar.
Kostnaðurinn lendir því á skattgreiðendum á höfuðborgarsvæðinu, sem reka SORPU. „Sé dreifing á pappírs- og pappaumbúðum og pappír (dagblöð og tímarit) svipuð í blönduðum heimilisúrgangi og í blátunnustraumnum má gera ráð fyrir að pappír (rit-) sé 80–90% af þessu. Því má ætla að heildarkostnaður við urðun á dagblaða- og tímaritapappír á höfuðborgarsvæðinu sé um 40–45 milljónir á ári,“ segir Björn en tekur fram að upphæðirnar séu gróflega áætlaðar. Ef þessi pappír og pappi, um 2.800 tonn á ári, færi í rétta flokkun í hvert skipti færi kostnaðurinn niður í 840 þúsund á ári.
Lesa má allt um málið í nýjustu útgáfu Kjarnans.