TiSA-samningurinn verður gerður opinber strax og Ísland hefur undirritað hann og íslensk upplýsingalög gilda um öll gögn sem Ísland leggur fram í samningsviðræðunum. Íslensk stjórnvöld virða hins vegar „þá staðreynd að ólíkar reglur gilda um opinberan aðgang að upplýsingum einstakra þátttökuríkja".
Þetta kemur fram í skriflegu svari utanríkisráðherra við fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur, þingkonu Pírata, um TiSA-viðræðurnar sem barst í gær. Svarið er hægt að lesa í heild sinni hér.
Kjarninn og ýmsir aðrir fjölmiðlar víðsvegar um heiminn greindu skjölum úr TiSA-viðræðunum um aukið frelsi fjármálaþjónustu á alþjóðamörkuðum þann 19. júní síðastliðinn. Wikileaks komst yfir skjölin, sem eru dagsett 19. apríl 2014, og kom þeim til valina fjölmiðla. Kjarninn var eini íslenski fjölmiðilli sem var boðið að taka þátt í því samstarfi. Hægt er að lesa skjölin hér.
Fimm ára trúnaður
Á meðal þess sem kom fram í skjölunum var að vilji sé til þess að vinda ofan af því regluverki sem sett hefur verið á fjármálaþjónustu eftir hrun, liðka fyrir veru lykilstjórnenda og sérfræðinga í öðrum löndum en þeirra eigin heimalöndum umfram aðra og setja upp einhvers konar yfirþjóðlegan dómstól til að taka ákvarðanir um deilumál sem munu spretta upp á milli fjármálafyrirtækja og þjóða í framtíðinni.
Mikil leynd hvílir yfir skjölunum sem Kjarninn greindi frá, og birti, og viðræðunum í heild. Þær þykja afar viðkvæmar enda verið að sýsla með grundvallarréttindi á vettvangi sem lýtur í raun engum reglum. Á forsíðu skjalanna segir meðal annars að ekki megi aflétta trúnaði á þeim fyrr en fimm árum eftir að TiSA-samkomulagið taki gildi eða fimm árum eftir að viðræðunum ljúki, fari svo að samningar náist ekki. Á skjölunum stendur að þau verði að „vera vistuð í lokaðri eða öruggri byggingu, herbergi eða hirslu“.
Talið auka ójöfnuð gríðarlega
Alþjóðasamtök starfsfólks í almannaþjónustu (PSI) hafa gagnrýnt TiSA-viðræðurnar harðlega. Í skýrslu sem þau gáfu út í lok apríl 2014 segir meðal annars að viðræðurnar séu vísvitandi tilraun til að auka hagnað stærstu og ríkustu fyrirtækja og þjóðríkja heims á kostnað þeirra sem verst hafa það. Verði samkomulagið að veruleika muni það auka ójöfnuð gríðarlega.
„Þetta samkomulag mun koma fram við farandverkamenn (e. migrant workers) sem vöru og takmarka getu ríkisstjórna til að tryggja réttindi þeirra,“ segir enn fremur í skýrslu PSI.
Heitir samráði
Í svari Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra við fyrirspurn Birgittu Jónsdóttur vegna TiSA-viðræðnanna kemur fram að ákvörðum um að taka þátt í viðræðunum hafi verið tekin í desember 2012, í tíð síðustu ríkisstjórnar. Öll helstu samstarfsríki Íslands taka einnig þátt í viðræðunum.
Í svarinu kemur fram að Ísland hafi sótt alls níu fundi vegna viðræðnanna, þar af sex formlegar samningslotur. Gunnar Bragi heitir samráði við utanríkismálanefnd og segir að henni verði gert kleift að koma sjónarmiðum sínum á viðræðunum á framfæri.
Hérlend upplýsingalög gilda um innlend gögn
Ein spurningin í fyrirspurn Birgittu er svohljóðandi: „Er ráðherra meðvitaður um að ekki má aflétta trúnaði af skjölum sem liggja til grundvallar samningnum í fimm ár eftir að samkomulagið tekur gildi og hvernig hyggst ráðherra gera þinginu grein fyrir samningnum ef slíkar takmarkanir eru í gildi?“
Í svari ráðherra segir að samningurinn verði gerður opinber strax og hann verður undirritaður og „um þau gögn sem Ísland leggur fram í samningsviðræðunum gilda hérlend upplýsingalög en eins og i öllu alþjóðasamstarfi verður að virða þá staðreynd að ólíkar reglur gilda um opinberan aðgang að upplýsingum einstakra þátttökuríkja. Af hálfu Íslands verður starfað samkævmt íslenskri upplýsingagjöf en á sama tíma virtur áskilnaður um trúnað sem önnur þátttökuríki gera áskilnað um þegar kemur að gögnum sem þessi ríki leggja fram“.