Liðin vika var stór fyrir Íslendinga. Baltasar Kormákur frumsýndi stórmynd sína Everest, sem var eftirunnin á Íslandi og skartar m.a. Ingvari E. Sigurðssyni, á einni merkustu kvikmyndahátíð heimsins í Feneyjum. Myndin fékk að mestu góða dóma og ljóst að hún hefur þegar aukið hróður íslenskra listamanna víða um heim.
Næst var komið að karlalandsliðinu í knattspyrnu, og því eina prósenti þjóðarinnar sem fylgdi því til Amsterdam, að vinna stærsta sigur íslenskrar knattspyrnusögu á fimmtudag. Ungu strákarnir í U-21 árs karlaknattspyrnulandsliðinu tóku svo við keflinu á laugardag og lögðu stjörnum prýtt lið Frakka og sitja nú á toppi síns undanriðils.
Síðar sama dag spilaði íslenska körfuboltalandsliðið sinn fyrsta leik á stórmóti og var mjög nálægt því að vinna heimamenn í Þýskalandi fyrir framan þrettán þúsund manns í Berlín. Í þýska liðinu eru þrír NBA-leikmenn, þar á meðal lifandi goðsögnin Dirk Nowitzki. Frammistaða íslenska liðsins, sem átti möguleika á sigri fram á lokamínútur leiksins, vakti því mikla athygli.
Í gær var svo rúsínan í pylsuendanum. Fyrst komst körfuboltalandsliðið eins nálægt því að sigra Ítali og hægt var að komast og síðan tryggði íslenska karlalandsliðið sig inn á Evrópumótið í knattspyrnu í Frakklandi næsta sumar með jafntefli gegn liði Kasakstan fyrir framan smekkfullan Laugardalsvöll.
Það má með sanni segja að ný tegund af útrás Íslendinga hafi náð ákveðnu hámarki í síðustu viku. Útrás sem byggði ekki á hroka, yfirlæti, afleiðum, kúlulánum, vaxtamunaviðskiptum eða blekkingum líkt og sú síðasta heldur á hæfileikum. Afleiðing hennar er gríðarlega jákvæð landkynning fyrir Ísland, sem hefur líkast til sjaldan eða aldrei verið jafn fyrirferðamikið í heimspressunni. Þ.e. nema þegar eldgos, bankahrun eða viðlíka séríslenskar hörmungar eiga sér stað.