Íslendingar munu taka þátt í samstöðuaðgerðum NATO í Úkraínu á næsta ári með því að leggja til borgaralegan sérfræðing, með rekstrarframlagi til eftirlitsverkefna ÖSE í Úkraínu og viðbótarstarfsmann í eftirlitsteymi stofnunarinnar. Þetta kemur fram í nefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar um frumvarp til fjáraukalaga fyrir árið 2014 sem var lagt fram í gær.
Kostnaður vegna þessa verður samtals 50 milljónir króna.
Kjarninn greindi frá því í síðustu viku að á fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna, sem fór fram þriðjudaginn 2. desember og miðvikudaginn 3. desember í höfuðstöðvum NATO í Brussel, hefði Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóri NATO, fordæmt aðgerðir Rússa í Úkraínu. Að baki þeirri fordæmingu stóðu utanríkisráðherrar allra NATO-ríkjanna 28. Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra Íslands, sat fundinn fyrir Íslands hönd.
„28 fyrir 28 árið 2015“
Á fundinum í síðustu viku sagði Jens Stoltenberg: „28 fyrir 28 árið 2015.“ Það þýðir að Ísland mun einnig leggja eitthvað að mörkum til þeirra, þrátt fyrir að landið sé herlaust. Kostnaður vegna framlags Íslands verður 50 milljónir króna. Hér sjást allir utanríkisráðherrar NATO-ríkjanna ásamt Stoltenberg á fundinum í síðustu viku.
Utanríkisráðherrarnir tóku tvær ákvarðanir varðandi aðkomu NATO að ástandinu í Úkraínu á fundinum. Í fyrsta lagi mun verða myndaður tímabundinn viðbragðsherafli (e. interim spearhead force) sem mun geta brugðist við ef á þarf að halda innan örfárra daga eftir að þjónustu hans verður óskað. Þessi herafli, sem verður undir merkjum NATO, mun aðallega verða samansettur af hermönnum frá Þýskalandi, Hollandi og Noregi.
Í öðru lagi var ákveðið að viðhalda viðveru bandalagsins við austur-landamæri þess. Ástæða þessa er sú ógn sem stafar af tilburðum Rússa í Úkraínu og víðar á áhrifasvæði ríkisins gagnvart þeim NATO-aðildarríkjum sem eiga landamæri að óróasvæðum.
Stoltenberg sagði að öll 28 ríki NATO munu taka þátt í þessum aðgerðum. Á blaðamanna fundi fyrir viku sagði hann: „28 fyrir 28 árið 2015.“ Það þýddi að Ísland myndi einnig leggja eitthvað að mörkum til þeirra, þrátt fyrir að landið sé herlaust.
Nú er komið í ljós hvert það framlag er.