Evrópskir húseigendur borguðu hvergi jafnmikið fyrir að búa í eigin húsnæði heldur en á Íslandi árið 2018. Þetta kemur fram í tölum frá hagstofu Evrópusambandsins, en bent var á þær í nýjustu Kjarafréttum stéttarfélagsins Eflingar, sem kom út í gær.
Fjármagnskostnaður meginástæðan
Samkvæmt Eflingu er það einkum fjármagnskostnaður við að eignast íbúðarhúsnæði sem skapar þessa óvenju óhagstæðu útkomu fyrir Ísland. Aðrar mælingar Eurostat benda í sömu átt, en í fáum öðrum Evrópulöndum fer jafnstór hluti af neysluútgjöldum í húsnæðiskaup.
Á hinn bóginn borga Íslendingar að jafnaði helmingi minna en hinn almenni íbúi Evrópusambandsins í rafmagn og hita. Einungis tvö prósent af heildarútgjöldum heimilanna fóru í þann málaflokk hérlendis árið 2019, en samsvarandi hlutfall á hinum Norðurlöndunum var á milli fjórum og fimm prósentum.
Leigjendur hlutfallslega betur settir
Húsnæðiskostnaður hjá leigjendum er aftur á móti mun minna íþyngjandi hérlendis heldur en í flestum öðrum Evrópulöndum. Alls þurftu 17,5 prósent leigjenda á Íslandi að greiða meira en 40 prósent af ráðstöfunartekjum í leigu, samanborið við fjórðung allra leigjenda í Evrópusambandinu.
Hlutfallslega góð staða leigjenda nær að bæta upp fyrir mikinn húsnæðiskostnað húseigenda, en heildarkostnaðurinn vegna húsnæðis er svipaður byrði á neytendur hérlendis og í Evrópusambandinu. Alls fóru að meðaltali 27 prósent útgjalda heimila í húsnæði, hita og rafmagn hérlendis árið 2020, en samsvarandi hlutfall í öllu Evrópusambandinu nam 26 prósentum. Kostnaðarliðurinn var meðal annars meira íþyngjandi í Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi.
Hvergi jafnmikil aukning og hérlendis
Í tölum Eurostat má einnig finna samanburð á húnsæðiskostnaði þeirra sem búa í eigin húsnæði á síðustu árum. Á árunum 2015-2020 jókst kostnaðurinn um 73 prósent, en það var langmesta kostnaðaraukningin í allri Evrópu. Næstmesta aukningin á tímabilinu var í Ungverjalandi, en þar jókst húsnæðiskostnaður húseigenda um 38 prósent.
Á sama tíma jókst kostnaður þeirra sem búa í eigin húsnæði um fjórðung í Svíþjóð og fimmtung í Noregi. Í Danmörku og Finnlandi jókst hann hins vegar um minna en tíu prósent á þessum fimm árum.