Íslendingurinn Gísli Rafn Ólafsson er nú staddur í Ghana þar sem hann tekur virkan þátt í baráttunni gegn útbreiðslu ebólu-veirunnar í Vestur-Afríku. Gísli Rafn, sem er fimm barna faðir, hélt utan á vegum Nethope, sem eru þrettán ára gömul regnhlífarsamtök 42 stærstu hjálparsamtaka í heimi. Þetta er önnur ferð Gísla Rafns til Vestur-Afríku vegna ebólu-faraldursins, en hann var meðal annars stjórnandi íslensku alþjóðabjörgunarsveitarinnar sem fór til Haítí árið 2010 eftir stóran jarðskjálfta þar í landi.
Gísli Rafn var björgunarsveitarmaður í rúm tuttugu ár, en síðastliðinn fjögur ár hefur hann starfað hjá Nethope, sem yfirmaður neyðarmála hjá samtökunum. Starf hans felst í samhæfingu á öllu er viðkemur fjarskiptum og upplýsingatækni, þegar áföll dynja á hvar sem er í heiminum.
Á að koma á fjarskiptum á svæðum þar sem ebóla geysar
Verkefni Gísla verður að koma á fjarskiptum á dreifðari svæðum í Síera Leóne, Líberíu og Gíneu, sem eru löndin sem hvað harðast hafa orðið úti vegna ebólu-veirunnar. „Okkar hlutverk verður að koma á tengingum við internetið í þessum dreifðari sveitum og bæjum, þar sem ebólan geysar hvað mest,“ segir Gísli Rafn í samtali við Kjarnann. „Í dag er mjög takmarkað upplýsingaflæði frá þessum stöðum, þannig að það er mjög erfitt fyrir þá sem eru að skipuleggja viðbragðsáætlanir að vita hvar þeir eigi að setja mestan þungann hverju sinni. Það fréttist oft ekki fyrr en dögum eða jafnvel vikum síðar þegar ebólan blossar aftur upp á einhverjum stað, því það eru svo léleg fjarskipti á þessum svæðum.“
„Ég veit hverjar hætturnar eru, og nota þar af leiðandi allar mögulegar aðferðir til að forðast smit. Maður er ekki mikið að heilsa fólki og notar mikið handspritt og svo framvegis.“
Nethope hyggst koma upp hátt í tvö hundruð gervihnattamóttökurum, sem samtökin hafa fengið að gjöf meðal annars frá Facebook og auðkýfingnum Paul Allen, sem er annar stofnandi Microsoft. Gísli Rafn vinnur nú að undirbúningi verkefnisins í Ghana þar sem Sameinuðu þjóðirnar samhæfa allar sínar aðgerðir, en hann stefnir á að fara á hættusvæðin í næstu viku til að kanna aðstæður. Hann mun snúa aftur til Íslands um miðjan desember, en í byrjun janúar er ráðgert að Gísli Rafn haldi aftur til Afríku, og tveir til þrír Íslendingar með honum sem sinna munu ákveðnum hlutum verkefnisins.
Gísli Rafn Ólafsson í Haítí.
Lét íslensk heilbrigðisyfirvöld vita af ferðinni
Áður en að Gísli Rafn hélt utan, hafði hann samband við íslensk heilbrigðisyfirvöld, lét vita af ferð sinni og leitaði upplýsinga um viðbragðsáætlanir. Hann segir sömu viðbragðsreglur í gildi hér á landi eins og annars staðar í heiminum. „Ef þú ert ekki heilbrigðisstarfsmaður, heldur hefur verið að aðstoða við aðra hluti en að sinna veikum, þá máttu koma heim strax en átt að fylgjast með líkamshitanum tvisvar á dag í þrjár vikur. Ef einhver hiti kemur upp á maður að hafa strax samband og láta vita að maður hafi verið á svæðinu. Ebólan smitast nefnilega ekki fyrr en hitinn kemur, og það er góð leið til að átta sig á því hvenær maður er mögulega orðinn smitandi og hvenær maður er byrjaður að veikjast sjálfur. Þannig að á þessum 21 degi, reynir maður að vera aðeins minna að umgangast aðra, allavega fólk sem er kannski viðkvæmt fyrir öðrum sjúkdómum. En almennt séð er maður ekki settur í sóttkví eða neitt slíkt.“
Fer að öllu með gát
Gísli Rafn er óhræddur við að smitast af ebólu-veirunni, hann fari að öllu með gát. „Ég veit hverjar hætturnar eru, og nota þar af leiðandi allar mögulegar aðferðir til að forðast smit. Maður er ekki mikið að heilsa fólki og notar mikið handspritt og svo framvegis. Það er í raun þannig með ebóluna að smitleiðirnar eru mjög svipaðar og varðandi HIV-veiruna, það er að segja að þú þarft að fá líkamsvessa til að sameinast til að smitast, þannig að það er mjög þekkt hvernig maður á að passa sig. Það eru helst heilbrigðisstarfsmenn, serm eru að hjúkra og hjálpa þeim beint sem eru smitaðir, sem eru í meiri hættu en við.“
„Ég byrjaði í björgunarsveit fyrir rúmum 20 árum síðan, og það er í rauninni sami drifkraftur sem er í gangi hjá mér í dag og var þá, að vilja hjálpa þeim sem eru í neyð.“
Að sögn Gísla Rafns, munu markmið alþjóða hjálparsamta að hefta útbreiðslu ebólu-veirunnar fyrir 1. desember ekki nást. Sýkingar hafi verið að aukast og þá sérstaklega í Síera Leóne. „En alþjóðasamfélagið er loksins búið að taka almennilega við sér, en það tók langan tíma, því það er næstum komið ár síðan fyrsta tilfellið kom upp í Gíneu. Í rauninni fór lítið að gerast fyrr en í september á þessu ári, en menn eru að vonast til þess að hinn aukni þungi muni hafa áhrif og gera það að verkum að menn nái tökum á þessu. En sjúkdómurinn er orðinn ansi útbreiddur á mörgum dreifðari svæðum Síera Leóne og Líberíu, sem gerir mönnum erfitt um vik að ná utan um þetta.“
Viljinn til að hjálpa alltaf jafn sterkur
Gísli Rafn segir sama viljann drífa sig áfram í dag, og þegar hann byrjaði í björgunarsveitarstarfinu á Íslandi. „Ég byrjaði í björgunarsveit fyrir rúmum 20 árum síðan, og það er í rauninni sami drifkraftur sem er í gangi hjá mér í dag og var þá, að vilja hjálpa þeim sem eru í neyð. Það er náttúrulega mjög sérstakt við ebóluna, að það er í gangi ákveðin hræðsla við hana sem er kannski meiri en við margt annað, en sannleikurinn er sá að hætturnar eru kannski alveg jafn miklar og þegar maður fer inn á jarðskjálftasvæði eða eitthvað slíkt. Fjölskyldan mín er orðin ansi vön því að ég hoppi upp í næstu vél og fari þangað sem neyð er mikil. Um leið og það kom upp að ég væri að fara hingað, sagði konan við mig að það væri í fínasta lagi, því hún vissi að ég myndi passa mig.“