Í ákvörðun Samkeppniseftirlitsins, sem birt er í dag, er komist að þeirri niðurstöðu að Já hf. hafi misnotað markaðsráðandi stöðu sína á markaði fyrir rekstur og heildsöluaðgang að gagnagrunni yfir símanúmer,“ segir í tilkynningu Samkeppniseftirlitsins vegna þeirrar ákvörðunar að sekta fyrirtækið Já, um 50 milljónir króna vegna brota á samkeppnislögum.
Í tilkynningunni segir ennfremur að félagið hafi brotið gegn lögum með háttsemi sem beindist gegn mögulegum keppinautum félagsins á smásölumörkuðum fyrir upplýsingaþjónustu sem byggir á aðgangi á umræddum gagnagrunni.
Enn fremur segir í tilkynningunni: „Að mati Samkeppniseftirlitsins hefur verðlagning Já fyrir aðgang að gagnagrunninum verið óhófleg og til þess fallin að útiloka samkeppni. Með verðlagningunni hafi Já í raun synjað mögulegum keppinautum um aðgang að ómissandi aðstöðu félagsins og þannig viðhaldið eða styrkt markaðsráðandi stöðu sína. Fyrir liggur að þeir sem hugðust nýta gagnagrunnin með þeim hætti að leitt gæti til samkeppni við Já, var gert að greiða mun hærra verð en þeim sem engin samkeppnisleg ógn stóð af. Já bauð slíkum aðilum verð sem var tugum milljóna króna lægra á ársgrundvelli fyrir aðgang að sömu upplýsingum. Háttsemi Já að þessu leyti er hvorki málefnaleg né sanngjörn og ekki í samræmi við þær kröfur sem hvíla samkvæmt samkeppnislögum á fyrirtæki í yfirburðastöðu. Vegna þessara brota er Já gert að greiða stjórnvaldssekt að fjárhæð kr. 50 milljónir króna í ríkissjóð,“ segir í tilkynningunni.
Í tilkynningu frá 1800, sem upphaflega kærði Já vegna meintra brota, segir Andri Árnason í tilkynnningu, að niðurstaðan sé mikið fagnaðarefni.
„Þriggja ára baráttu 1800 er nú loksins lokið með fullnaðarsigri. Neytendur hafa valkosti – þeir geta valið 1800 til þess að fá upplýsingar og aðstoð. Þetta er sigur fyrir 1800 en ekki síður fyrir neytendur sem fá loksins alvöru samkeppni, valkosti og lægra verð. Þessi úrskurður er mikið gleðiefni fyrir 1800 sem hefur barist fyrir virkri samkeppni á þessum markaði árum saman. Aðalatriðið er þó að neytendur höfðu sigur – enn einn einokunarmúrinn er fallinn,“ segir í tilkynningu frá Andra fyrir hönd 1800.
Fréttin verður uppfærð eftir því sem frekari upplýsingar berast.