Stuðningur við ríkisstjórn Íslands mælist nú 33 prósent. Það hefur minnkað um 1,3 prósentustig frá því síðari hluta októbermánaðar. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem birt var í morgun.
Sjálfstæðisflokkurinn er stærsti flokkur landsins samkvæmt könnuninni. Alls sögður 23,6 prósent aðspurðra myndu kjósa hann í dag, sem er töluvert minna en í síðustu mælingu MMR, sem lauk 21. október síðastliðinn. Þá sögðust 26,1 prósent aðspurðra að þeir myndu kjósa flokkinn.
Björt framtíð er næst stærsti flokkur landsins samkvæmt könnuninni með 18,6 prósent fylgi. Samfylkingin mælist með 16,1 prósent fylgi og Framsóknarflokkurinn með 12,3 prósent. Píratar mælast með 11,3 prósent fylgi og Vinstri-grænir með 10,7 prósent. Fylgi annarra mögulegra stjórnmálaframboða mælist undir tveimur prósentum.
Stuðningur við ríkisstjórnina aldrei minni
Stuðningur við ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, sem samanstendur af Framsóknarflokknum og Sjálfstæðisflokknum, mælist nú 33 prósent og hefur aldrei mælst lminni í könnunum MMR. Þegar best lét, í byrjun júní 2013, mældist stuðningur við ríkisstjórnina 59,9 prósent. Stuðningurinn hefur því tæplega helmingast. Stuðningur við ríkisstjórnina er minni en stuðningur við ríkisstjórn Geirs H. Haarde, sem samanstóð af Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingu, mældist í desember 2008. Sú ríkisstjórn, sem sprakk nokkrum vikum síðar, mældist þá með 34,5 prósent stuðning.
Núverandi ríkisstjórn á smá í að ná óvinsældum ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, sem samanstóð af Samfylkingu og Vinstri-grænum. Í síðustu stuðningsmælingu þeirrar ríkisstjórnar mældist stuðningur við hana einungis 31,5 prósent.