Ísland er komið á Evrópumótið í Frakklandi sumarið 2016. Það var tryggt með 0-0 jafntefli við Kasakstan á Laugardalsvelli í kvöld.
Fyrri hálfleikur var ákaflega tíðindalítill. Það merkilegasta sem gerðist var í raun ákafi fárra stuðningsmanna Kasaka í gömlu stúkunni annað veifið og það að nokkur fyrirmenninn í fyrirmennastúkunni stóðu ekki upp fyrir Íslandi þegar nánast allur almúginn gerði það.
Það var reyndar engin þörf á neinum ofsa. Úrslit í leik Tyrklands og Hollands fyrr um daginn, þar sem Tyrkir sigruðu 3-0, breyttu ekki neinu um það sem íslenska liðið þurfti að gera. Stig var alltaf nauðsynlegt til að tryggja veruna á lokamótinu í Frakklandi næsta sumar og til þess að sleppa við að þurfa að ná í hagstæð úrslit í útileiknum í Tyrklandi í næstu umferð til að losna við óbærilega spennandi síðasta leik gegn Lettum heima.
Það sem stóð uppúr í fyrri hálfleiknum var ótrúlegur stuðningur troðfulls Laugardalsvallar. Tólfan var mætt, mátulega beygluð eftir margra daga útstáelsi í kjölfar Hollandssigursins, og söng eins og það væri hennar síðasta verk í lífinu. Hún flaggaði einnig risastórum frönskum fána, sem var viðeigandi.
Síðari hálfleikur var svipað rólegur framan af. Ísland var miklu meira með boltann og Kasakar vörðust með alla menn á sínum vallarhelmingi. Eina alvöru færið fékk Jón Daði Böðvarsson skömmu eftir að hálfleikurinn var flautaður á en markvörður Kasakstan varði frá honum úr þröngu færi. Þegar tók að rökkva fóru áhorfendur þó að sjá betur nýju flóðljósin á Laugardalsvelli, en þau skapa ákaflega fagmannlega stemmningu. Vel gert í fljóðljósainnkaupum KSÍ. Mínútu fyrir leikslok var Aron Einar Gunnarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, rekinn af velli með tvö rauð spjöld. Líklega hefur manni sem rekinn hefur verið út af aldrei verið fagnað jafn ákaft af stuðningsmönnum síns liðs.
Þegar flautað var til leiksloka bókstalega trylltist allt. Íslendingar í stúkunni féllust í faðma í hrönnum. Ótrúlegum árangri hafði verið siglt í höfn. Ísland, 330 þúsund manna eyja í ballarhafi, mun eiga lið á lokamóti í knattspyrnu karla og verður um leið fámennasta landið til að ná á slíkt.
Stöndum öll upp fyrir Íslandi!!!