Eftir að hafa fækkað töluvert þegar heimsfaraldurinn byrjaði var fjöldi starfandi innflytjenda orðinn jafnmikill í sumar og hann var í byrjun árs í fyrra. Á fyrri helmingi ársins fjölgaði starfandi innflytjendum um rúm fimm þúsund. Þetta kemur fram í nýbirtum tölum Hagstofu um fjölda starfandi í júní.
Á fyrstu þremur mánuðum síðasta árs störfuðu alls rúmlega 35 þúsund innflytjendur hérlendis, en eftir að faraldurinn skall á í mars árið 2020 fækkaði þeim töluvert. Í fyrrasumar var fjöldi þeirra kominn niður í tæplega 33 þúsund, en lágmarkinu var náð um síðustu áramót þar sem þeir voru orðnir um 29 þúsund talsins.
Líkt og sjá má á mynd hér að ofan byrjaði starfandi innflytjendum svo að fjölga á þessu ári, en fjölgunin var langmest í maí og júní síðastliðnum. Af þeim innflytjendum sem starfa hérlendis eru langflestir, eða um 97 prósent þeirra, með lögheimili hérlendis. Með brottflutningi farandverkamanna var þetta hlutfall komið upp í 99 prósent um síðustu áramót, en er nú komið í svipað horf og það var í áður en faraldurinn byrjaði.
Fjöldi starfandi innflytjenda sveiflast þó mikið eftir árstíðum, en hann eykst venjulega á sumrin og dregst svo saman á veturna. Á mynd hér að neðan er tekið tillit til þessara árstíðarsveiflna og er fjöldi starfandi innflytjenda síðasta eina og hálfa árið borinn saman við fjöldann í sama mánuði árið 2019.
Líkt og myndin sýnir fækkaði starfandi innflytjendum um tæpan fimmtung þegar mest lét, en dregið hefur úr fækkuninni á síðustu mánuðum. Þrátt fyrir að þeir voru orðnir jafnmargir í júní og þeir voru í byrjun síðasta árs voru þeir 11 prósentum færri en í júní árið 2019.