Fyrrum eigandi og forstjóri jarðhnetufyrirtækisins Peanut Corporation of America, starfrækt í Georgíu-fylki í Bandaríkjunum, hefur verið dæmdur til 28 ára fangelsisvistar fyrir aðkomu sína að útbreiðslu salmonellusmits sem varð níu manns að bana og veikti hundruð manna.
Forstjórinn fyrrverandi heitir Steward Parnell og er 61 árs gamall. Árið 2014 voru hann og bróðir hans, Michael Parnell sem vann einnig hjá fyrirtækinu, ákærðir fyrir að hafa vísvitandi sent salmonellusýktar jarðhnetur í verslanir. Alls er vitað um 714 atvik þar sem fólk veiktist eftir að borða jarðhnetur frá fyrirtækinu, að því er greinir frá í frétt Reuters um málið. Málið kom upp árið 2009 og leiddi til einna yfirgripsmestu innkallana á matvælamarkaði í sögu Bandaríkjanna.
Fyrir dómi voru bræðurnir sakaðir um að hafa vitað af salmonellusýkingunni um árabil en ekki aðhafst. Dómari í málinu dæmdi Michael Parnell í 20 ára fangelsi auk þess sem Mary Wilkerson, fyrrum gæðaeftirlitsstjóri verksmiðjunnar, fékk fimm ára dóm.