Jeb Bush mun formlega tilkynna um framboð sitt til forseta Bandaríkjanna seinna í dag á fundi í Miami Dade háskólanum. Flestum er löngu ljóst að Bush vill verða frambjóðandi Repúblikanaflokksins en hann hefur ekki formlega viðurkennt það hingað til. Fyrr í dag gaf hann þó út myndband sem gefur fyrirætlanir hans til kynna, þar sem hann segist reiðubúinn til að leiða Bandaríkin, en skoða má myndbandið hér að neðan.
Í gær birti hann annað myndband á netinu þar sem hann ræðir verk sín sem ríkisstjóri í Flórída. Hann lagði áherslu á að hann hefði gert miklar breytingar í Flórída og staðið við sitt. Í myndbandinu er lögð áhersla á ýmis félagsmál, líkt og réttindi fatlaðs fólks, fjölskyldumál, skólamál og heimilisofbeldi.
Bush er þriðji fjölskyldumeðlimurinn til að sækjast eftir því að verða forseti Bandaríkjanna, en tæp 27 ár eru síðan faðir hans, George Bush, var kjörinn forseti. Bróðir hans George W. Bush varð forseti árið 2000. Eftirnafnið er talið geta orðið honum fjötur um fót, og talið er að hann muni reyna að gera eins lítið úr nafninu og hægt er. Hann hefur til að mynda gert merki framboðsins opinbert og þar er ekkert minnst á Bush, heldur er merkið einfaldlega fornafnið, Jeb. Þá segir New York Times að bróðir hans og faðir verði ekki viðstaddir þegar Jeb tilkynnir um framboðið síðar í dag.
— Jeb Bush (@JebBush) June 14, 2015
Þrátt fyrir að hafa ekki enn formlega tilkynnt um framboðið er talið að Bush hafi þegar safnað um 100 milljónum dala í kosningasjóð.