Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, gagnrýnir nýja ríkisstjórn undir forystu Vinstri grænna fyrir að kljúfa upp ráðuneyti og fjölga þeim.
Ráðuneytin í stjórnarráði Íslands eru nú tólf og hafa aldrei verið fleiri, en auk þess ákvað ríkisstjórnin að færa fjölmarga málaflokka á milli ráðuneyta. Samkvæmt heimildum Kjarnans er talið að tilfærslurnar muni hafa áhrif á rúmlega fjórðung starfsmanna ráðuneyta.
Jóhanna, sem var forsætisráðherra frá 2009 til 2013 í ríkisstjórn sem bæði Katrín Jakobsdóttir og Svandís Svavarsdóttir sátu í, segir í stöðuuppfærslu á Facebook að í rannsóknarskýrslu til Alþingis um hrunið sem varð haustið 2008, og unnin var undir forystu Páls Hreinssonar, hafi ein tillagan verið að fækka ráðuneytum og stækka, því mörg hver væru of lítil og vanmáttug til að takast á við verkefni sín.
Jóhanna segir það líka vekja furðu að Vinstri græn skuli „afhenda íhaldinu umhverfis-og loftslagsmálin“, og á þar við Sjálfstæðisflokkinn. Hann hafi barist kröftuglega í heilan áratug gegn rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúruauðlinda. „Og ekki síður að íhaldið mun einnig fara með loftslagsmálin, en aðgerðir á því sviði munu geta ráðið úrslitum um hvort lífvænlegt verður á jörðinni í náinni framtíð.“
Guðlaugur Þór Þórðarson er nýr ráðherra umhverfis-, orku- og loftslagsmála.
Í rannsóknarskýslu til Alþingis um hrunið 2008, sem unnin var undir forystu Páls Hreinssonar, var ein tillagan að fækka...
Posted by Jóhanna Sigurðardóttir on Monday, November 29, 2021