„Þetta kom mjög skemmtilega á óvart. Ég var ekki að búast við að vinna þetta eða hafði hugsað út í það sérstaklega ef ég á að vera alveg hreinskilinn,“ segir körfuboltakappinn Jón Arnór Stefánsson, nýkrýndur Íþróttamaður ársins 2014, í samtali við Kjarnann.
Jón Arnór hefur verið einn fremsti körfuboltamaður þjóðarinnar undanfarin ár. Hann lék til að mynda stórt hlutverk í því að tryggja íslenska karlalandsliðinu þátttökurétt á lokamóti stórmóts í körfubolta, í fyrsta skipti í sögunni, með því að fara fyrir liðinu í lokaleikjum þess í undankeppninni, samningslaus og ótryggður fyrir meiðslum. „Þetta er mikil viðurkenning fyrir mig og körfuboltahreyfinguna eins og hún leggur sig á Íslandi, og ég er mjög stoltur,“ segir Jón Arnór.
Fyrsti körfuboltamaðurinn í 48 ár
Þetta var í níunda skiptið að Jón Arnór var á meðal þeirra tíu íþróttamanna sem komu til álita til að hreppa verðlaunin að mati Samtaka íþróttafréttamanna. Jón Arnór er eins og kunnugt er bróðir Ólafs Stefánssonar handboltamanns, en þeir eru fyrstu bræðurnir til að vera útnefndir íþróttamenn ársins. Þá hefur aðeins einn körfuboltamaður verið valinn íþróttamaður ársins á undan Jóni Arnóri, en það var fyrir 48 árum þegar Kolbeinn Pálsson hlaut titilinn.
Jón Arnór var ekki viðstaddur verðlaunaafhendinguna í gærkvöldi, en hann er á Spáni þar sem hann leikur með körfuboltaliðinu Unicaja Málaga í spænsku úrvalsdeildinni.
Þakklátur þeim sem hafa stutt sig
Í samtali við Kjarnann segir Jón Arnór að þakklæti sé honum ofarlega í huga á þessum tímapunkti. „Ég er lánsamur að vera umvafinn góðu fólki sem hefur stutt ötullega við bakið á mér í gegnum tíðina. Fyrst og fremst foreldrar mínir, konan mín og mínir nánustu sem hafa alltaf haft óbilandi trú á mér og verið til staðar fyrir mig. Ég vil nota tækifærið og minnast á Benna þjálfara (Benedikt Guðmundsson), sem er mér mjög kær og á stóran þátt í mínum körfuboltaferli. Hann tók mig undir sína leiðsögn þegar ég byrjaði að æfa sem gutti og sýndi mér leiðina, hverju ég þyrfti að fórna til að ná langt í íþróttinni. Ég er honum þakklátur fyrir allt sem hann kenndi mér innan vallar sem utan, og fyrir tímann sem hann fórnaði til þess að gera mig að betri manneskju og körfuboltamanni. Þá vil ég líka nefna Inga og Friðrik Inga, en þeir hafa líka reynst mér vel og tekið þátt í því að móta mig sem körfuboltamann.“
Jón Arnór er bjartsýnn fyrir hönd körfuboltans á Íslandi. „Framtíð körfuboltans er vonandi björt. Við eigum langt í land, en það eru strákar sem eru að koma upp núna með miklum látum, sem eiga möguleika á að ná langt ef þeir halda rétt á spöðunum.“