„Það er skelfilegt að upplifa þá tilfinningu að Hæstiréttur haldi hlífiskildi yfir óheiðarlegum embætismanni en láti réttindi fjögurra einstaklinga lönd og leið.“ Þetta segir Jón Ásgeir Jóhanesson, einn þeirra sem er ákærður í svokölluðu Aurum-máli, í grein í Fréttblaðinu um þá ákvörðun Hæstaréttar að ómerkja sýknu í málinu í síðustu viku. Hann segir tilgang ákæruvaldsins vera að koma honum í fangelsi hvað sem það kosti. Eiginkona Jóns Ásgeirs er stærsti eigandi 365 miðla, sem á Fréttablaðið.
Hæstiréttur ómerkti dóminn á grundvelli ummæla sem Sverrir Ólafsson, einn þriggja dómara í málinu, lét falla í fjölmiðlum í kjölfar dómsins. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að hann telji „óhjákvæmilegt að virtum atvikum málsins að líta svo á að ummæli meðdómsmannsins gæfu tilefni til að draga með réttu í efa að hann hefði verið óhlutdrægur í garð ákæruvaldsins fyrir uppkvaðningu héraðsdómsins.“
Segist ekki trúa að sérstakur kunni ekki á Google
Í grein sinni segir Jón Ásgeir að Aurum-málið snúist um „fullkomlega eðlileg viðskipti sem embætti sérstaks saksóknara reynir að klæða í glæpabúning.“
Jón Ásgeir segir augljóst að sú skýring Ólafs Þórs Haukssonar, sérstaks saksóknara, að hann hafi ekki vitað að meðdómarinn, Sverrir Ólafsson, og Ólafur Ólafsson, einn hinna dæmdu í svokölluðu Al Thani-máli, hafi verið bræður. „Hver trúir því að 100 manna herlið sérstaks saksóknara kunni ekki á Google þar sem tengslin liggja fyrir? Hvaða hugsanlega ástæðu hafði héraðsdómarinn til þess að ljúga til um samskipti sín við sérstakan saksóknara? Skiptir ekki máli að bréf liggur frammi í málinu frá meðdómaranum sem styður frásögn héraðsdómarans? Af hverju er svona rugl í kerfinu tekið út á okkur sem vorum sýknaðir? Ekki er við okkur að sakast um það sem gerðist. Eigum við ekki að njóta vafans? Það er skelfilegt að upplifa þá tilfinningu að Hæstiréttur haldi hlífiskildi yfir óheiðarlegum embættismanni en láti réttindi fjögurra einstaklinga lönd og leið.“
Það er skelfilegt að upplifa þá tilfinningu að Hæstiréttur haldi hlífiskildi yfir óheiðarlegum embættismanni en láti réttindi fjögurra einstaklinga lönd og leið.
Hann segir að Hæstiréttur hafi hins vegar blessað þetta og dæmi að sérstakur saksóknari fái annað tækifæri í sakamáli sem embætti sé þegar búið að tapa.
Jón Ásgeir segir Ólaf Þór Hauksson, sérstakan saksóknara, vera óheiðarlegan embættismann. Tilgangur málarekstur gegn sér sé að koma sér í fangelsi sama hvað það kosti.
Rótað í nærbuxnaskúffunni
Jón Ásgeir segist hafa mátt verja hendur sínar sem sakborningur síðastliðinn 13 ár, fyrst í Baugsmálinu svokallaða og síðar í málum tengdum hruninu. „Tilgangurinn virðist vera sá að koma mér í fangelsi hvað sem það kostar. Gerðar hafa verið ótal húsleitir heima hjá mér og í fyrirtækjum sem tengjast mér. Rótað hefur verið í nærbuxnaskúffu minni, síminn minn hleraður og mikilvægum gögnum haldið undan í dómsmálum. Og ekki hefur eiginkona mín verið látin í friði. Hennar símar hafa verið hleraðir og húsleitir gerðar í hennar fyrirtækjum án þess að hún hafi nokkurn tíma á ævinni fengið stöðu sakbornings. Sök hennar virðist sú ein að hafa gifst röngum manni.“
Rótað hefur verið í nærbuxnaskúffu minni, síminn minn hleraður og mikilvægum gögnum haldið undan í dómsmálum. Og ekki hefur eiginkona mín verið látin í friði.
Hann segir ákæruvaldið hafa eytt milljörðum króna af fé íslenskra skattgreiðenda síðustu 13 ár til að reyna að reyna að finna einhvern glæp svo hægt sé að taka hann úr umferð. „Ég er viss um að eftir 20 ár munum við fyrirlíta svona vinnubrögð. En af hverju gerist þetta aftur og aftur? Fyrir mér er svarið einfalt - kerfið sér jú um sína - og ver sig með kjafti og klóm. Verst þykir mér samt að sjá að Hæstiréttur skuli spila með.“
Snýst um sex milljarða lán til eignarlaus félags
Hæstiréttur Íslands kvað upp niðurstöðu sína síðastliðinn miðvikudag og féllst þar með á ómerkingarkröfu saksóknara í málinu. Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari hafði krafist ómerkingar á meðferð málsins fyrir héraðsdómi, þar sem allir sakborningar voru sýknaðir, á grundvelli þess að einn meðdómari málsins hefði verið vanhæfur til að fjalla um það. Umræddur meðdómari er, líkt og áður segir, Sverrir Ólafsson, fjármálaverkfræðingur, en hann er bróðir Ólafs Ólafssonar, kenndur við Samskip, sem hlaut þungan fangelsisdóm vegna aðildar sinnar að Al-Thani fléttunni svokölluðu.
Aurum-málið snýst um sex milljarða króna lánveitingu til félagsins FS38 í júlí 2008. Lánið var veitt til að fjármagna kaup FS38, eignarlaust félag í eigu Pálma Haraldssonar, á 25,7 prósent hlut Fons hf., líka í eigu Pálma, í Aurum Holding Limited. Hluti lánsins, einn milljarður króna, var ráðstafað inn á persónulegan bankareikning Jóns Ásgeirs. Hann nýtti þann milljarð síðan í að borga meðal annars 705 milljóna króna yfirdráttarheimild sína hjá Glitni. Sérstakur saksóknari vill meina að Jón Ásgeir hafi þannig fengið hlut í ávinningi af brotinu og notið hagnaðarins.
Sakborningar í Aurum-málinu, þeir Lárus Welding, fyrrverandi forstjóri Glitnis, Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs bankans, Jón Ásgeir Jóhannesson, fyrrum aðaleigandi Glitnis, og Bjarni Jóhannesson, fyrrverandi viðskiptastjóri bankans, voru allir sýknaðir af ákæru sérstaks saksóknara um umboðssvik í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 5. júní síðastliðinn. Einn dómari málsins, Arngrímur Ísberg, skilaði sératkvæði og taldi að sakfella ætti Lárus, Magnús Arnar og Jón Ásgeir.
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að ummæli Sverris Ólafssonar í fjölmiðlum eftir Aurum-dóminn haf gert það að verkum að ómerkja þurfti hann.
Ummæli í fjölmiðlum ástæða ómerkingar
Eftir að niðurstaða héraðsdóms í Aurum-málinu lá fyrir komust fjölmiðlar á snoðir um að Sverrir og Ólafur væru bræður. Þeir spurðu Ólaf Þór Hauksson, sérstakan saksóknara, hvort hann hefði vitað af þeim tengslum, sem hann neitaði. Í kjölfarið, nánar tiltekið 9. júní 2014, ræddi fréttastofa RÚV við Sverri. Í frétt hennar sagði hann: „Ég fór til dómarans, Guðjóns St. Marteinssonar, sagði honum frá tengslum mínum. Hann taldi að það væru ekki vandkvæði á því að ég tæki þetta að mér … Ég trúi því ekki í eina sekúndu að sérstakur saksóknari hafi ekki vitað af mínum tengslum strax í upphafi. Ef hann vissi ekki af mínum tengslum, þá ber það vott um afskaplega léleg og yfirborðskennd vinnubrögð. Mér finnst viðbrögð hans, sko, hæpin og mér finnst þetta bera vott um örvæntingarfullar og jafnvel óheiðarlegar aðgerðir. Og hann grípur til þeirra á erfiðum tímum þegar að trúverðugleiki hans stofnunar er eiginlega í molum.“
Í sjónvarpsfréttum saman kvöld bættust eftirfarandi ummæli Sverris við fréttina: „„Ég trúi því fastlega að sérstakur saksóknari hafi vitað allan tímann hver ég var, hann telji það hins vegar kost að fullyrða núna að hann hafi ekki vitað það. Það laumast að mér sá grunur að saksóknari sé í rauninni að gera þetta til þess að veikja dóminn.“
Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að hann telji „óhjákvæmilegt að virtum atvikum málsins að líta svo á að ummæli meðdómsmannsins gæfu tilefni til að draga með réttu í efa að hann hefði verið óhlutdrægur í garð ákæruvaldsins fyrir uppkvaðningu héraðsdómsins.“
Það voru því ummæli Sverris í fjölmiðlum sem urðu þess valdandi að dómurinn var ómerktur.