Jón Atli Benediktsson, prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði, hlýtur tilnefningu til embættis rektors Háskóla Íslands, en hann hafði betur í baráttunni um rektorsstöðuna við Guðrúnu Nordal í annarri umferð rektorskjörsins.
Jón Atli hlaut 54,8 prósent greiddra atkvæða í seinni umferðinni, og Guðrún Nordal 42,6 prósent. Á kjörskrá voru 14.345, þar af 1.486 starfsmenn og 12.859 stúdentar. Við kosningar greiddu atkvæði alls 1.284 starfsmenn eða 86,4 prósent á kjörskrá og 6.271 stúdent eða 48,8 prósent á kjörskrá. Alls greiddu 7.555 atkvæði og var því kosningaþátttaka í heild 52,7 prósent.
Fyrri umferð rektorskosninga fór fram 13. apríl síðastliðinn og urðu úrslit á þá leið að Jón Atli Benediktsson hlaut 48,9 prósent greiddra atkvæða, Guðrún Nordal 39,4 prósent og Einar Steingrímsson, stærðfræðingur og prófessor við University of Strathclyde í Glasgow, 9,7 prósent greiddra atkvæða. Tvö prósent atkvæðaseðla voru auðir.
Þar sem enginn frambjóðenda hlaut meirihluta greiddra atkvæða eins og reglur fyrir Háskóla Íslands kveða á um var kosið að nýju milli Guðrúnar og Jóns Atla í dag.