Jón Atli Benediktsson, prófessor við verkfræði- og náttúruvísindasvið Háskóla Íslands (HÍ), segir skólann þurfa aukin fjárframlög til áframhaldandi uppbyggingar. Annað sé ekki valkostur, ef það eigi að framþróa starfið í skólanum. „Það má t.d. nefna að þrátt fyrir um 20% niðurskurð á árunum eftir hrun fjölgaði nemendum um 20%. Þetta jók gríðarlega álag á starfsmenn sem á sama tíma hafa einnig verið að sækja fram í rannsóknum. Undirfjármögnun af þessu tagi gerir auðvitað allt starf mjög erfitt og gengur ekki til lengdar,“ segir Jón Atli í svörum við spurningum sem Kjarninn beindi til hans í tilefni af því að hann hefur ákveðið að sækjast eftir embætti rektors Háskóla Íslands, en Kristín Ingólfsdóttir hefur þegar tilkynnt að hún ætli ekki að sækjast eftir endurkjöri.
Spurningar Kjarnans og svör Jóns Atla við þeim eru hér að neðan.
Af hverju sækist þú eftir því að gegna embætti rektors?
„Margir hafa leitað til mín og hvatt mig til að sækjast eftir rektorsstarfinu þar sem skólinn þurfi á einstaklingi að halda í starf rektors sem þekkir háskólann vel og hafi góðan skilning á þörfum ólíkra fræðigreina og fræðasviða. Ég hef starfað innan Háskóla Íslands í hartnær aldarfjórðung. Á þeim tíma hef ég kynnst starfsemi skólans vel bæði sem kennari í rafmagns- og tölvuverkfræði og vísindamaður. Þá hef ég verið aðstoðarrektor vísinda og kennslu frá árinu 2009 og áður sinnt margvíslegum öðrum stjórnunarstörfum innan skólans. Á síðustu árum hefur átt sér stað mikil uppbygging þrátt fyrir skugga niðurskurðar og óvissu um framtíðarfjármögnun háskólans. Ég vil gjarnan taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu Háskóla Íslands og hef því ákveðið að verða við því kalli að bjóða mig fram til rektors. Önnur ástæða þess að ég býð mig fram er sú að mér finnst gaman að vinna með fólki í því að móta sameiginlega sýn og komast að niðurstöðu sem gagnast heildinni.“
Hver eru mest aðkallandi verkefnin sem Háskóli Íslands þarf að ráðast í að þínu mati?
„Ég legg áherslu á fjögur meginatriði varðandi framtíð skólans. Fyrst er að nefna fjármögnun. Eftir mikinn niðurskurð á síðustu árum er, að mínu mati, eitt helsta verkefni nýs rektors að treysta fjármögnun Háskóla Íslands. Aukin fjárframlög til skólans eru forsenda áframhaldandi uppbyggingar. Sérstaklega vil ég nefna að mikilvægt er að heildarendurskoðun fari fram á reiknlíkani mennta- og menningarmálaráðuneytsins. Í öðru lagi tel ég brýnt að bæta starfskjör og aðbúnað starfsfólks og leita leiða til að draga úr miklu starfsálagi og auka starfsánægju. Í þriðja lagi legg ég þunga áherslu á mikilvægi nýsköpunar þekkingar og rannsókna. Mikið hefur áunnist á undanförnum árum en mikilvægt er að læra líka af reynslunni og treysta enn frekar rannsóknainnviðina, virða sérstöðu fræðigreina og efla þverfræðilegt samstarf og nýliðun. Að síðustu má nefna að ég tel nauðsynlegt að standa vörð um gæði náms og prófgráða. Háskólinn má aldrei missa sjónar á því meginmarkmiði að þjóna nemendum sem best. Tryggja verður að nám við Háskóla Íslands standist ávallt alþjóðlegan samanburð. Styðja þarf við bakið á kennurum, tryggja góða kennsluhætti og námsaðstöðu fyrir nemendur.“
Jón Atli segir mikið álag hafa verið á starfsmönnum Háskóla Íslands á undanförnum árum.
Hvernig finnst þér að til hafi tekist við rekstur Háskóla Íslands, í erfiðu árferði, undanfarin ár?
„Háskóli Íslands er mjög vel rekin stofnun og grettistaki hefur verið lyft á síðustu árum hvað varðar aukna rannsóknarvirkni og uppbyggingu náms þrátt fyrir mikinn niðurskurð frá hruni. Það má t.d. nefna að þrátt fyrir um 20% niðurskurð á árunum eftir hrun fjölgaði nemendum um 20%. Þetta jók gríðarlega álag á starfsmenn sem á sama tíma hafa einnig verið að sækja fram í rannsóknum. Undirfjármögnun af þessu tagi gerir auðvitað allt starf mjög erfitt og gengur ekki til lengdar. Reyndar hefur skólinn lengi verið undirfjármagnaður eins og skýrsla Samtaka evrópskra háskóla (EUA) frá 2005 sýndi fram á. Þá sýna mælingar OECD að íslenska háskólakerfið er einungis hálfdrættingur á við Norðurlönd þegar kemur að framlögum á hvern nemanda. Þessu þarf að breyta.“
Ertu flokkspólitískur?
„Ég hef alltaf haft áhuga á stjórnmálum og samfélagslegum málefnum. Ég fylgi hins vegar engum flokkspólitískum línum né er ég meðlimur í stjórnmálaflokki. Rektor Háskóla Íslands þarf að eiga gott samstarf við alla, óháð stjórnmálaskoðunum, og því er ekki við hæfi að sá sem gegnir því embætti taki þátt í flokkspólitísku starfi.“