Blaðamennirnir Jón Bjarki Magnússon og Jóhann Páll Jóhannsson, sem starfað hafa á DV og unnu blaðamannaverðlaun Blaðamannafélags Íslands fyrir umfjöllun um lekamálið, gagnrýndu ráðningu Eggerts Skúlasonar harðlega í viðtali við Kastljós í kvöld.
Þeir gagnrýndu einnig þau eigendaskipti sem átt hafa sér stað og segja ljóst að DV muni breytast. „ DV á morgun verður ekki það sama DV og við höfum starfað fyrir," sagði Jón Bjarki. Þá sögðu þeir frá því að grínast hafi verið með það að á ritstjórn DV að Eggert Skúlason yrði ritstjóri, vegna þess að það væri svo fráleitt.
Þeir gagnrýndu einnig að Hörður Ægisson, sem var blaðamaður á Morgunblaðinu, hafi verið ráðinn viðskiptaritstjóri DV fram yfir Inga Freyr Vilhjálmsson, ritstjórnarfulltrúa.
Tilkynnt var um það fyrr í dag að þrír nýir ritstjórar hafi verið ráðnir á DV. Þeir eru Eggert Skúlason, Kolbrún Bergþórsdóttir og Hörður Ægisson, sem verður viðskiptaritstjóri.
Eggert Skúlason starfaði á árum áður við fjölmiðlun, meðal annars á Stöð 2. Undanfarin ár hefur hann rekið eigið almannatengslafyrirtæki og meðal annars starfað fyrir kröfuhafa föllnu bankana. Fyrirtæki Eggerts. Franca ehf.,var líka ráðið til að gera úttekt á DV eftir að nýir eigendur tóku við fjölmiðlinum í haust. Starfsmenn DV sendu í kjölfarið frá sér yfirlýsingu þar sem þeir sögðu úttektina illa unna og að hún virtist að mestu byggja á skoðunum úttektarhöfunda sjálfra.