Jón Gnarr, fyrrum borgarstjóri Reykjavíkur, mun dvelja við stofnun á vegum bandaríska Rice-háskólans í Houston fram á næsta vor hið minnsta. Þetta staðfestir hann við Kjarnann. Jón upplýsti fyrr í kvöld að hann og fjölskylda hans muni flytja til Bandaríkjanna bráðlega.
Jón segir í samtali við Kjarnann að Rice-háskólinn hafi boðið honum að dvelja við stofnun sem heitir Center for Energy & Enviromental in the Human Sciences. Jón segir tilboðið vera mjög spennandi og að hann og fjölskylda hans muni vera í Bandaríkjunum fram á vor að minnsta kosti.
Facebook-færslan sem Jón setti inn fyrr í kvöld er svohljóðandi: „Það er orðið ljóst að við litla fjölskyldan munum flytja til Houston Texas eftir áramótin. Erum komin með íbúð á ágætum stað og Nonni mun fara í Edgar Allen Poe Elementary School. Held að þetta gæti verið upphafið að einhverju mjög athyglisverðu ævintýri.“