Jón Gnarr, fyrrum borgarstjóri Reykjavíkur og annar helmingur Tvíhöfða, segist „volgur“ fyrir því að bjóða sig fram til embættis forseta Íslands árið 2016. Þetta kom fram í þættinum Vikulokin á Rás 1 í dag.
Helgi Seljan, umsjónarmaður þáttarins, spurði Jón út í mögulegt forsetaframboð og Jón svaraði því til að framboð hans væri eitthvað sem mörgum þætti gaman. Hann væri hins vegar ekki að hugsa mikið um það núna vegna þess að honum þætti það ekki alveg tímabært.
Helgi spurði Jón síðan hvort hann væri „volgur“ fyrir því að bjóða sig fram. Jón svaraði: „Já, ég er volgur“.
Könnun sýndi miklar vinsældir Jóns
Í könnun sem Fréttablaðið framkvæmdi í byrjun nóvember kom í ljós að flestir Íslendingar vilja að Jón Gnarr taki við af Ólafi Ragnari Grímssyni sem forseti Íslands. Alls sögðust 47 prósent þeirra sem svöruðu að þeir vildu Jón Gnarr sem næsta forseta. Ragna Árnadóttir var nefnd næstoftast, en níu prósent þeirra sem svöruðu vilja hana í forsetastólinn.
Í samtali við Fréttablaðið eftir að niðurstaða könnunarinnar lá fyrir sagðist Jón Gnarr snortinn yfir niðurstöðunni. Hann hafi ekki velt framboði fyrir sér en segir að niðurstöðurnar verði til þess að hann muni leggjast undir feld og ræða málin við fjölskylduna sína. Nú segist hann hins vegar „volgur“ fyrir því að bjóða sig fram.
Í Vikulokunum kom einnig fram að Jóni finnist hljóðbrot sem Rósetta, gervitunglið sem hringsólaði um halastjörnuna 67P/Churyumov-Gerasimenko, hefur numið með fjölbreyttum mælitækjum sínum lag ársins.
Jón Gnarr er annar helmingur Tvíhöfða, sem er með vikulega hlaðvarpsþætti á Kjarninn.is.