Ákvörðun Þjóðskrár Íslands um að synja beiðni Jóns Gnarr Kristinssonar um að breyta kenninafni sínu í Jón Gnarr hefur verið felld úr gildi. Innanríkisráðuneytið kvað upp úrskurð þess efnis á þriðjudag. Því á Þjóðskrá Íslands "skrá fullt nafn hans sem Jón Gnarr í þjóðskrá". Þetta kemur fram í úrskurði ráðuneytisins sem Kjarninn hefur undir höndum.
Jón, sem er fyrrum borgarstjóri Reykjavíkur, landsþekktur grínisti og núverandi framkvæmdastjóri dagskrársviðs 365 miðla, var skírður Jón Gunnar Kristinsson. Hann hefur alla sína fullorðinstíð kallað sig Jón Gnarr og hafði þegar fengið samþykkt að breyta millinafni sínu í Gnarr. Undanfarið hefur hann hins vegar barist fyrir því að verða skráður með ættarnafnið Gnarr í þjóðskrá.
Þjóðskrá fékk málið fyrst til meðferðar í ágúst 2014 og komst þá að þeirri niðurstöðu að beiðni Jóns uppfyllti ekki skilyrði laga um mannanafnanefnd. Því mætti hann ekki taka upp ættarnafnið Gnarr sem nýtt ættarnafn og því var beiðninni hafnað. Innanríkisráðuneytið kemst að þeirri niðurstöðu sinni að sú ákvörðun hafi verið rétt.
Jón fluttist tímabundið til Texas í Bandaríkjunum fyrr á þessu ári. Í mars síðastliðnum greindi Jón frá því að dómari þar hafi samþykkt umsókn sína um að breyta nafni sínu í Jón Gnarr. " Þetta er mjög einfalt og skýrt ferli og ekki flókið, öfugsnúið, niðurlægjandi og kjánalegt eins og heima." sagði Jón í stöðuuppfærslu á Facebook af því tilefni.
Jón óskaði í kjölfarið eftir því upptaka hans á ættarnafninu Gnarr í Bandaríkjunum yrði skráð í þjóðskrá hérlendis. Þjóðskrá hafnaði því og var málinu áfrýjað til innanríkisráðuneytisins. Það úrskurðaði á þriðjudag að Þjóðskrá Íslands ætti að skrá ættarnafnið Gnarr. Í úrskurðinum segir: "Ekki verður sú álýktun dregin að Þjóðskrá Íslands sé óheimilt að leggja til grundvallar erlendar stjórnvaldsákvarðanir eða erlenda dóma um nafnabreytingar. Samkvæmt meginreglum íslensks réttar ber að viðurkenna erlendar stjórnvaldsákvarðanir og erlenda dóma sem eru ákvarðandi um persónulega stöðu manna nema þær séu í andstöðu við grunnreglur íslensks réttar eða allsherjarreglu en einnig ef réttar- eða siðferðisvitund almennings hér á landi væri stórlega misboðið með viðurkenningu erlendrar úrlausnar.
Eins og máli þessu er háttað liggur það fyrir að JGK [Jón Gnarr Kristinsson] er íslenskur ríkisborgari með skráð lögheimili á Íslandi en var tímabundið búsettur í Bandaríkjunum þegar beiðni um nafnbreytingu hans var samþykkt af þarlendum dómstólum. Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki annað ráðið en að til nafnbreytingar hafi komið í samræmi við lög í því landi sem JGK var þá búsettur".