Fjórir fyrrverandi starfsmenn Landsbankans eru sakaðir um stórtæka markaðsmisnotkun, fyrir tugi milljarða króna í aðdraganda bankahrunsins, í máli Sérstaks saksóknara á hendur þeim. Málið er annar angi ákæru sem Sérstakur saksóknari gaf út í mars í fyrra, þar sem sex fyrrverandi starfsmönnum Landsbankans var gefið að sök brot á lögum um verðbréfaviðskipti og almennum hegningarlögum.
Sigurjón Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans, og Sigríður Elín Sigfúsdóttir, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Landsbankans voru sýknuð af ákæru um markaðsmisnotkun í fyrri anga ákærunnar er snérist að Ímon málinu svokallaða, en Steinþór Gunnarsson, sem var framkvæmdastjóri verðbréfasviðs Landsbankans, hlaut níu mánaða fangelsisdóm, þar af hálft ár á skilorði.
Á miðvikudaginn fer fram aðalmeðferð í seinna markaðsmisnotkunarmálinu í Héraðsdómi Reykjavíkur, en á meðal ákærðra í því máli eru áðurnefndur Sigurjón Árnason, Ívar Guðjónsson, fyrrverandi forstöðumaður eigin fjárfestinga Landsbankans, og Júlíus Steinar Heiðarsson og Sindri Sveinsson, sem voru starfsmenn eigin fjárfestinga bankans.
Samkvæmt heimildum Kjarnans er Jón Óttar Ólafsson, fyrrverandi starfsmaður hjá Sérstökum saksóknara, á meðal vitna sem kölluð verða fyrir dóminn. Nafn Jóns Óttars er að finna á vitnalista Helga Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, sem heldur uppi vörnum fyrir Júlíus Steinar í málinu.
Jón Óttar Ólafsson hefur harðlega gagnrýnt vinnubrögð embættis Sérstaks saksóknara við símhleranir í fjölmiðlum að undanförnu, og sakað starfsmenn embættisins um lögbrot með því að hafa hlustað á símtöl sakborninga við verjendur.
Hörður Felix Harðarson, lögmaður Hreiðars Más Sigurðssonar fyrrverandi bankastjóra Kaupþings, krefst þess að mál Sérstaks saksóknara á hendur umbjóðanda sínum, þar sem Hreiðar, Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, og Magnús Guðmundsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Kaupþings í Lúxemborg, eru sakaðir um tugmilljarða umboðssvik, verði vísað frá dómi vegna meintra ólögmætra hleranna. Við flutning frávísunarkröfunnar í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku krafðist Hörður Felix þess að Jón Óttar, Ólafur Þór Hauksson sérstakur saksóknari og Bjarni Ólafur Ólafsson starfsmaður embættisins yrðu kallaðir til vitnis vegna þessa. Dómari málsins tók sér ótímabundinn frest til að úrskurða um kröfu verjanda Hreiðars Más.