„Margir sem til þekkja hafa veitt því athygli að stundum er eins og ágætir lögmenn, sem allir vita að eru góðvinir áhrifamestu dómaranna við réttinn, hafi fengið afgreiðslur á málum sínum sem verða að teljast sérstaklega hagstæðar og efast má um að sumir aðrir hefðu fengið“. Þetta segir Jón Steinar Gunnlaugsson í bók sem hann hefur skrifað og kemur út í október. Hún ber heitið Í krafti –sannfæringar – saga lögmanns og dómara. Í hausthefti tímaritsins Þjóðmála eru birtir þrír kaflar úr síðasta hluta bókarinnar.
Jón Steinar rifjar sérstaklega upp afgreiðslu frá árinu 1996 þar sem ákveðinn lögmaður hafi fyrir mistök ekki kært úrskurð héraðsdóms innan tilskilins kærufrests. Hæstiréttur hafi hins vegar veitt honum kæruleyfi og málið tekið til efnismeðferðar á þeim forsendum. Jón Steinar segir að sér sé ókunnugt a ðtil sé annað dæmi um að þeir sem falli á kærufresti geti síðar fengið kæruleyfi. Engin heimild sé til þess í lögum. Síðar í greininni segir: „Það vekur athygli að hinn ágæti lögmaður, Gestur Jónsson hrl., sem fór með þetta mál fyrir þann sem kærði, naut áreiðanlega sérstakrar velþóknunar hjá dómurum, en hann hafði til dæmis verið skiptastjóri í þrotabúi Hafskips á árum áður og þá verið í góðum tengslum við þann dómara í hópnum sem líklega hefur stýrt niðurstöðunni“.
Hægt er að lesa kaflanna þrjá í heild sinni í nýjasta hefti Þjóðmála.