Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrum hæstaréttardómari og starfandi lögmaður, skrifar grein í Morgunblaðið í dag þar sem hann hvetur ráðamenn í ríkisstjórn og á Alþingi til að sjá embætti sérstaks saksóknara fyrir fjárframlögum til þess að hann geti klárað þau verk sem honum voru ætluð.
Í grein Jóns Steinars segir: „Við erum svo nú að fá af því fréttir að tekið hafi fimm til sex ár að fella niður mál manna sem haft hafa svonefnda „réttarstöðu sakbornings" allan þennan tíma. Það er ekkert minna en skelfilegt að svo skuli hafa tekist til í mörgum tilvikum, því slík staða er líkleg til að hafa stórskaðað lífshlaup þessara manna allan tímann og er þeim áhrifum áreiðanlega ekki lokið hjá mörgum þeirra.
Fjárlög til embættisins hafa verið skorin mjög niður undanfarin ár.
Svo er einhverjum málum ólokið. Jafnvel hefur heyrst að ekki sé ennþá búið að höfða þau mál sem embættið telur að höfða beri. Verulega mun hafa skort á að fengist hafi nauðsynleg fjárframlög til þess meðal annars að sinna tæknilegum rannsóknaratriðum svo sem þeim sem snerta bókhald og reikningsskil banka og annarra stórfyrirtækja. Þá berast fréttir af því að draga eigi úr fjárframlögum til þessa embættis og gera því þar með enn erfiðara fyrir um að ljúka þessum störfum. Þetta gengur ekki. Sjá verður embætti sérstaks saksóknara fyrir fjárframlögum til þess að hann geti gengið í að klára þau verk sem honum voru ætluð og enn er ólokið.Svo ráðamenn í ríkisstjórn og á Alþingi eru hvattir til að láta hér til sín taka svo ljúka megi starfsemi hins sérstaka saksóknara sem allra fyrst."
Mörg mál fullrannsökuð og bíða ákvörðun um ákæru
Kjarninn fjallaði um stöðu mála hjá embætti sérstaks saksóknara í síðustu viku. Í þeirri umfjöllun kom fram að alls eru fjórtán svokölluð hrunmál full rannsökuð hjá embætti sérstaks saksóknara og bíða þess að ákvörðun verði tekin um hvort saksótt verði í þeim eða ekki. Til viðbótar eru 24 slík mál í rannsókn, og mörg þeirra mjög langt komið. Búist er við ákvörðun um hvort ákært verði í flestum málanna á þessu ári.
Fjárframlög til embættis sérstaks saksóknara voru hins vegar skorin umtalsvert niður í fjárlögum ársins 2015. Embættið fær 291,4 milljónir króna á þessu ári en það fékk 561 milljón króna í fyrra.
Ólafur Hauksson, sérstakur saksóknari, sagði við Kjarnann að skert fjárframlög muni mögulega gera það að verkum að hætt veri við rannsókn mála án þess að þau verði full rannsökuð. Auk þess mun rannsókn mála sem þegar eru í rannsókn mögulega dragast. „Á fjórtán mánaða tímabili hefur fækkað um meira en helming starfsmanna og að sama skapi hefur sérfræðingum sem vinna við embættið í verktöku verið fækkað líka. Þetta mikil skerðing mun hafa áhrif þótt enn sé nokkuð snemmt að segja til hvers hún leiðir á endanum. Ljóst er þó að ekki hefur reynst unnt að manna allar þær rannsóknir sem embættið hefur með höndum eins og sakir standa nú.“