Jon Stewart, sem stýrt hefur þættinum „The Daily Show“ í 16 ár og gert hann að einum af beittustu fréttaskýringaþáttum Bandaríkjanna, þrátt fyrir að vera að upplagi hæðnis- og grínþáttur, hefur ákveðið að hætta sem stjórnandi hans. Hann greindi frá þessu í gær.
Í frétt New York Times segir að samningur Stewart við Comedy Central, sem hefur sýnt þættina frá upphafi, renni út í september næstkomandi og hann hefur ákveðið að endurnýja samninginn ekki. Stewart sagði áhorfendum sínum að hann væri enn ekki búinn að ákveða nákvæmlega hvenær hann myndi hætta. Það gæti orðið í júlí en það gæti líka orðið í desember. „Í hjarta mínu þá veit ég að það er komin tími fyrir einhvern annan,“ sagði Stewart og átti þar við næsta stjórnanda þáttarins, sem mun lifa áfram.
http://youtu.be/8KM_kGxVUJw
Undir stjórn Stewart varð „The Daily Show“ gríðarlega vinsæll og festi Comedy Central í sessi sem alvöru leikanda á hinum harða kvöldþáttamarkaði í Bandaríkjunum, þar sem keppinautarnir eru þættir á borð við „Late Show“ með David Letterman og „Tonight Show“ með Jay Leno. Um 2,2 milljónir manna horfðu að meðaltali á hvern þátt í Bandaríkjunum í fyrra.
Á þeim tíma sem Stewart stýrði þættinum vann hann 20 Emmy verðlaun og gaf mörgum þekktum sjónvarpsmönnum sín fyrstu alvöru tækifæri í sjónvarpi. Þeirra á meðal eru Steve Carell, Stephen Colbert og John Oliver.