„Kæri bæjarstjóri/kóngur. Getur klaustur haft bíó? Það væri svo skemmtilegt, gerðu það. Kveðja, Gabríel Fannar, 6. bekk.“
Gabríel Fannar er Unason og sendi bréf um þetta mál til sveitarstjóra Skaftárhrepps nýverið. Hann var ekki eini grunnskólaneminn sem ákvað að skrifa sveitarstjóranum því auk erindis hans var bréf frá nemendum í 8.-10. bekk í Kirkjubæjarskóla tekið fyrir á síðasta fundi sveitarstjórnar.
Því það er ekki aðeins afþreying á borð við bíó sem brennur á unga fólkinu í Skaftárhreppi. Þeim er annt um náttúruna, vilja vegbætur, Hopp-rafskútur og fleiri leiktæki.
Hér eru ábendingar nemenda 8.- 10. bekkjar sem lagðar voru fyrir sveitarstjórn á fundi hennar 19. október:
„Við viljum fá ruslatunnur aftur á bæina og á Klaustur því ef það eru ekki ruslatunnur þá eru meiri líkur á að fólk hendi rusli í náttúruna,“ er það fyrsta sem unga fólkið setur á blað. Og vatnsmálin eru þeim einnig hugleikin. „Skipta um vatnslagnir í skólanum því vatnið þarf að renna í ca 30 mín til að kólna en er oft brúnt á litinn og vont bragð af því“.
Svo vilja þau að framkvæmdir við skólann verði kláraðar. „Klára skólann að utan (ekkert búið að vinna við það lengi) og fylla í holuna hjá mötuneytinu.“
Skólalóðin er þeim einnig ofarlega í huga. „Það vantar leiktæki sem henta okkar aldurshóp eins og köngulóarrólu, aparólu og úti körfuboltavöll.“
Verslanir fá svo létt á baukinn frá börnunum. „Það er mjög dýrt að búa úti á landi svo það er dýrt að versla í búðinni,“ skrifa þau. Og úrvalið er of lítið að þeirra mati og „oft gamalt nammi í sjoppunni.“
Til að komast um Kirkjubæjarklaustur vilja krakkarnir svo gjarnan fá aðgang að rafskútum og „Hopp-hlaupahjól“ eru á óskalistanum.
En þau taka líka fyrir alvarlegri mál sem snerta öryggi borgaranna. „Það þarf nauðsynlega að hefla Meðallandsveginn oftar því hann er hættulegur og fer illa með bílana,“ skrifa þau. „Við skorum á þig að fá þér bíltúr og prófa að keyra hann sjálfur,“ bæta þau við og beina þar orðum sínum til sveitarstjórans, Einars Kristjáns Jónssonar, sem þau kveðja með fallegum hvatningarorðum og hlýjum óskum um hið nýja starf: „Vertu annars velkominn í sveitina okkar og vonandi muntu kunna vel við þig.“
Undir bréfið skrifa Amelía Íris, Ásgeir Örn, Bríet Sunna, Garðar, Iðunn, Júlía, Friðrik, Vilhelm Logi, Daníel, Sverrir Máni, Ásgeir Marinó og Ólöf Ósk.
Sveitarstjórnin fjallaði um bæði erindin á fundi sínum nú í október. Hún þakkaði Gabríel Fannari fyrir að vekja athygli á kvikmyndamálunum og samþykkti samhljóða að vísa því til menningarmálanefndar sveitarfélagsins „með ósk um að nefndin athugi þann möguleika að hafa kvikmyndasýningar á Kirkjubæjarklaustri í samvinnu við stóru kvikmyndahúsin á höfuðborgarsvæðinu“.
Bréf nemenda 8.-10. bekkjar var einnig lagt fram til kynningar og þakkar sveitarstjórn þeim ábendingarnar.