Fasteignaþróunarfélagið Kaldalón, sem skráð var á First North markaðinn haustið 2019, ætlar að skrá sig á aðallista Kauphallar Íslands á næsta ári, 2022. Þetta kemur fram í tilkynningu sem birt var í kauphöllinni í morgun.
Þar segir að Kaldalón hafi undirritað viljayfirlýsingu við Arion banka um bankinn, sölutryggi allt að fimm milljarða króna í nýju hlutafé í tengslum við fyrirhugaða skráningu, gangi ákveðnar forsendur eftir. Auk þess hafi verið gerður ráðgjafasamningur við Arion banka sem felur í sér aðstoð hans við fjármögnun félagsins í tengslum við frekari kaup Kaldalóns á tekjuberandi fasteignum. „Hvort tveggja, framangreind viðskipti og undirritun ráðgjafasamnings við Arion eru liður í þeirri stefnu Kaldalóns að auka vægi tekjuberandi eigna í starfsemi félagsins, en viðhalda á sama tíma sterkum þróunararmi. Áhersla verður lögð á stærri eignir með trausta tekjumöguleika til langs tíma, auk eigna sem tækifæri eru til að þróa og nýta þannig sérþekkingu Kaldalóns á þróunar- og uppbyggingarverkefnum. Telur stjórn félagsins að nú sé lag að nýta sér markaðstæður til kaupa á tekjuberandi eignum.“
Kaupa af og selja til sömu aðila
Til að undirstrika þessa stefnubreytingu var greint frá því í tilkynningunni í morgun að Kaldalón hefði selt fasteignaverkefni dótturfélags síns í Vogabyggð til Reir ehf. fyrir 2.760 milljónir króna þegar búið var að draga skuldir frá. Reir ehf. er eignarhalds -og fjárfestingafélag sem var stofnað af, og er í eigu Hilmars Þórs Kristinssonar, eiginkonu hans Rannveigar Eir Einarsdóttur og hollensks viðskiptafélaga þeirra, Bernhard Jakob Strickler.
Heildarverð hinna keyptu félaga Lantan ehf. og VMT ehf. er kr. 5.320 milljónir. Yfirteknar skuldir nema kr. 3.273 milljónum. Viðskiptin eru háð endanlegri kaupsamningsgerð, samþykki stjórna kaupanda og seljenda og samþykki lánveitenda. Stefnt er að því að kaupin komi til framkvæmda eigi síðar en 30. júní 2021.
Eigandi VMT er áðurnefnt Reir ehf. og eigandi Lantan ehf. eru Reir ehf. og Aztiq Fjárfestingar ehf., sem eiga það félag til helminga. Aztiq Fjárfestingar er skráð í eigu Aztiq Investment Advisory AB í Svíþjóð. Félagið tengist stjórnendum Alvogen og Alvotech, meðal annars Róberti Wessman og Árna Harðarsyni.
Reir og Aztiq eiga einnig saman fjárfestingafélagið Frostaskjól ehf., sem er á meðal stærstu einkafjárfesta í fjarskipta- og fjölmiðlafyrirtækinu Sýn.
Félag Ingibjargar og Jóns Ásgeirs stærsti eigandinn
Stærsti eigandi Kaldalóns er Strengur Holding, félag sem stofnað var í fyrra og er að öllu leyti í eigu 365 ehf., eignarhaldsfélagi í eigu Ingibjargar Pálmadóttur þar sem eiginmaður hennar Jón Ásgeir Jóhannesson er stjórnarformaður. Strengur Holding á 28,8 prósent hlut í Kaldalóni. Jón Skaftason, framkvæmdastjóri Strengs Holding, er stjórnarformaður Kaldalóns.
Annað Strengs félag þeirra og viðskiptafélaga þeirra eiga einnig meirihluta hlutafjár í Skeljungi.
Kaldalón hagnaðist um 371 milljón króna í fyrra og hafði áætlanir um að hagnast um allt að 940 milljónir króna í dag. Sú afkomuspá hefur hins vegar verið aftengt vegna nýjustu vendinga og ný verður gefin út gangi þær allar eftir.
Heildareignir Kaldalóns í lok síðasta árs voru rúmir sex milljarðar króna og því ljóst að það er verið að stækka félagið verulega með þeim viðskiptum sem tilkynnt var um í morgun.
Bréf í Kaldalóni hafa hækkað um 4,24 prósent í dag eftir að tilkynnt var um skráningaráformin og ofangreind viðskipti.