Hópurinn sem gengið hefur frá kaupum á 90 prósent hlut í Íslenskum verðbréfum hf. hefur verið gerður opinber. Í honum er m.a. Ursus Maritimus Investors sem er félag í eigu Sigurðar Arngrímssonar, Kaldbakur ehf. sem er fjárfestingafélag Samherja, Lífeyrissjóður starfsmanna Akureyrarbæjar, KEA svf., Stapi lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður starfsmanna sveitarfélaga, Festa lífeyrissjóður, Lífeyrissjóður Vestmannaeyja, Kjálkanes ehf. og Salvus ehf. í eigu Sigþórs Jónssonar framkvæmdastjóra ÍV. Það er Kvika, sem áður hét MP Straumur, sem selur hlutinn. Félag í eigu þess, íslensk eignastýring ehf., mun áfram halda 9,99 prósent hlut sem það hyggst selja í náinni framtíð. Kaupverðið er ekki gefið upp og sagt vera trúnaðarmál.
Greint var frá því í fjölmiðlum á þriðjudag að salan stæði fyrir dyrum.
Sigþór segir að það felist mikil viðurkenning fyrir starfsmenn í nýju eignarhaldi. „Nýtt eignarhald gefur félaginu ýmis tækifæri og gerir því kleift að sækja kröftuglega fram á næstu misserum. Íslensk verðbréf munu taka virkan þátt í íslensku atvinnulífi með víðtækari þjónustu við viðskiptavini félagsins. Styrkur ÍV felst meðal annars í langri og góðri rekstrarsögu ásamt því góða orðspori og sérstöðu sem félagið hefur skapað sér á löngu tímabili.“
Átök um eignarhaldið og sameiningu
Nokkur átök áttu sér stað um eignarhaldið á Íslenskum verðbréfum í lok síðasta árs, sem Kjarninn greindi ítarlega frá. MP banki, Lífeyrissjóður verslunarmanna (LIVE) og félag í eigu Garðars K. Vilhjálmssonar gerðu tilboð í 27,5 prósent hlut Íslandsbanka í Íslenskum verðbréfum í október í fyrra. Föstudaginn 24. október var ákveðið að taka tilboðinu en þann sama dag bárust tilboðsgjöfunum upplýsingar um að Straumur hefði lagt inn tilboð í hlutinn þegar allt stefndi í að kaupin myndu ganga í gegn. Þær upplýsingar, sem voru byggðar á orðrómi á fjármálamarkaðnum, reyndust ekki réttar. Straumur gerði aldrei tilboð í hlutinn.
Hins vegar keypti bankinn 64,3 prósent hlut Sævars Helgasonar og Ásgeirs Ásgeirssonar, í gegnum félagið Gunner ehf., í Íslenskri eignastýringu ehf., sem átti þá 21,83 prósent hlut í Íslenskum verðbréfum. Straumi bauðst síðan að ganga inn í tilboð í aðra hluti í Íslenskum verðbréfum á grundvelli forkaupsréttarákvæðis. Þar á meðal var 27,5 prósent hlutur Íslandsbanka sem MP banki (10 prósent), LIVE (10 prósent) og Garðar Vilhjálmsson (7,5 prósent) tilkynntu um kaup á í október. Í lok desember í fyrra hafði Íslensk eignastýring eignast 58,14% hlut.
Í tengslum við þessar vendingar var vöngum velt yfir sameiningu MP banka, Straums og Íslenskra verðbréfa. Af því varð ekki en í febrúar á þessu ári var svo greint frá því að milli MP banka og Straums hefði náðst samkomulag um samruna bankanna. Þeir sameinuðust svo formlega í júní og breyttu nafni sínu nýverið í Kviku.
Starfað í tæpa þrjá áratugi
Íslensk verðbréf eru sérhæft eignastýringarfyrirtæki sem var stofnað árið 1987 og hvílir því á traustum grunni. Félagið hefur verið aðili að Kauphöll Íslands frá árinu 1995 og hefur starfsleyfi sem verðbréfafyrirtæki. Félagið veitir alhliða þjónustu á sviði eignastýringar og markaðsviðskipta auk reksturs framtakssjóða og sérhæfðra fjárfestinga.
Dótturfélag Íslenskra verðbréfa er ÍV sjóðir hf., og á félagið einnig 45,5 prósent eignarhlut í Tplús ehf. Starfsmenn eru 19 og búa þeir yfir mikilli reynslu og þekkingu á verðbréfamarkaði samfara fjölbreyttri menntun. Eignir í stýringu hjá Íslenskum verðbréfum eru um 111 milljarðar króna og alls eru rúmlega tvö þúsund einstaklingar og lögaðilar með fjármuni í eignastýringu og vörslu hjá félaginu.