Friðjón R. Friðjónsson varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins beindi sjónum sínum að húsnæðismálum í Reykjavík undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag en hann gefur kost á sér í 2. sæti á framboðslista Sjálfstæðisflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í vor.
Rifjaði hann upp umræður um húsnæðismál sem áttu sér stað á þinginu þann 10. mars síðastliðinn.
„Fyrir nokkrum dögum var hér hressileg umræða um húsnæðismál og höfuðborgarsvæðið, áhugaverð að mörgu leyti. Til hennar var blásið af þingmönnum Samfylkingarinnar. Þau komu hér hvert á fætur öðru og töluðu um tölur og um lóðir til vitnis um að allt væri í himnalagi í höfuðborginni.
Staðreyndin er hins vegar sú að Reykjavík dregst aftur úr hvað varðar íbúafjölda ár eftir ár. Eitt sinn voru Reykvíkingar 40 prósent þjóðarinnar en eftir nokkurra ára valdatíð R-listans byrjaði hlutfallið að lækka og hefur haldið áfram að lækka ár eftir ár,“ sagði hann.
Vísaði Friðjón í orð Kristrúnar Frostadóttur þingmanns Samfylkingarinnar þar sem hún benti á að Reykvíkingar væru ekki nema rétt rúmlega þriðjungur þjóðarinnar.
„Staðreyndin er sú að síðustu 20 ár hefur landsmönnum fjölgað um 30 prósent, en Reykvíkingum bara um 19 prósent. Á sama tíma hefur Kópavogsbúum fjölgað um rúm 60 prósent, Garðbæingum um 80 prósent og Hafnfirðingum um 50 próent. Mosfellsbær hefur tvöfaldast í íbúafjölda, 100 prósent fjölgun. Reykjanesbær og Árborg hafa vaxið um 80 prósent hvort og Hveragerði um 50 prósent, Akranes og Ölfus um 40 prósent.
Alls staðar í kringum höfuðborgina hefur íbúum fjölgað umfram landsmeðaltal. Alls staðar nýta sveitarfélögin tækifæri til að uppfylla óskir um ódýrar íbúðir og sérbýli, um að eiga garð og yrkja hann, öfugt við það sem gerist í Reykjavík þar sem íbúar Vogabyggðar voru skyldaðir til að rækta berjarunna þvert gegn vilja sínum,“ sagði hann.
Áminntur að gæta orða sinna
Lauk Friðjón máli sínu á því að þakka Kristrúnu Frostadóttur og Jóhanni Páli Jóhannssyni, þingmanni Samfylkingarinnar „krónprinsessunni og jókernum í spilastokki Samfylkingarinnar“ fyrir að draga athygli þingsins að „hnignandi stöðu höfuðborgarinnar“. Það myndi nýtast í samtalinu um framtíð Reykjavíkur sem fram fer á næstu vikum.
Birgir Ármannsson forseti Alþingis áminnti þingmanninn að gæta orða sinna þegar vikið væri að öðrum þingmönnum.
„Við reynum að vera málefnaleg“
Kristrún svaraði þingmanninum undir liðnum fundarstjórn forseta nokkru seinna og benti á að hún hefði ekki verið viðstödd í salnum þegar þessi einhliða orðaskipti hefðu átt sér stað.
„Nú vill svo til að háttvirtur þingmaður sem lét þessi orð falla um mig og samflokksmann minn, háttvirtan þingmann Jóhann Pál Jóhannsson, er líka í framboði í Reykjavík. Ég veit ekki hvort viðkomandi þingmaður ætli sér að halda áfram ákveðnum samskiptamáta sem hefur kannski átt sér stað í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðisflokksins en þannig eigum við ekki samskipti hér á þingi. Við reynum að vera málefnaleg. Við getum auðvitað tekist á um einstaka hluti. Hér var verið að tala um tölur sem voru teknar algerlega úr samhengi en áttu bara mjög vel við í þeirri umræðu sem hér var.
Þetta er nú ekki í fyrsta skipti sem ég sem þátttakandi í pólitísku starfi hef orðið fyrir svona – hvað á að segja? – orðalagi af hendi samflokksmanna hv. þingmanns þó að flestir hér inni, og allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins, hafi alltaf talað vel til mín,“ sagði hún.
Bauð Friðjóni að eiga orðastað við þau þar sem allir gætu svarað fyrir sig
Jóhann Páll svaraði Friðjóni einnig undir sama lið og Kristrún og sagðist vilja bjóða Friðjón velkominn til starfa.
„Það er svolítið krúttlegt að fylgjast með þessum kosningaskjálfta sem er hlaupinn í Sjálfstæðisflokkinn. Það er bara gott og blessað. Ég vil líka bjóða honum að eiga hér orðastað við okkur undir lið þar sem við getum svarað fyrir okkur og átt samskipti. Gangi honum bara vel í sínu,“ sagði Jóhann Páll.