Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, þingmaður Viðreisnar, hefur lagt fram skriflega fyrirspurn til Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra um fund Netumbo Nandi-Ndaitwah, aðstoðarforsætisráðherra og utanríkisráðherra Namibíu, í dómsmálaráðuneyti 7. júní síðastliðinn.
Þorbjörg Sigríður hefur kallað eftir upplýsingum um hvert tilefni fundarins var, hvaða mál voru rædd á honum og hvenær boðað var til fundarins. Þá vill hún vita hver skilaboð íslenskra stjórnvalda til Netumbo Nandi-Ndaitwah voru á þessum fundi og á hvaða forsendum Brynjar Níelsson, annar aðstoðarmanna dómsmálaráðherra, hefur ekki viljað tjá sig um ástæður eða efni þessa fundar sem hann sat fyrir hönd dómsmálaráðherra í dómsmálaráðuneyti. Að lokum vill hún fá upplýsingar um á grundvelli hvaða lagasjónarmiða ráðuneytið hefur talið sér fært að upplýsa ekki um tilefni fundarins eða fundarefni.
Ræddu Samherjamálið við forsætis- og utanríkisráðherra
Í byrjun júní heimsótti namibísk sendinefnd Ísland. Tilefnið meðal annars að hitta íslenska rannsakendur sem unnið hafa að hinu svokallaða Samherjamáli. Þeir hafa leikið stórt hlutverk við að aðstoða yfirvöld í Namibíu við þann anga rannsóknarinnar sem fer fram þar, meðal annars með ýmis konar gagnaöflun og með því að sinna réttarbeiðnum. Raunar höfðu rannsakendur og aðrir fulltrúar namibískra stjórnvalda einnig hitt íslenska rannsakendur sem vinna að rannsókn Samherjamálsins í höfuðstöðvum Europol í maí í saman tilgangi.
Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins var haft eftir Þórdísi Kolbrúnu að Samherjamálið hafi líka verið rætt á fundi hennar og aðstoðarforsætisráðherrans. „„Ég áréttaði á fundinum að þetta mál væri eðlilegum farvegi hjá lögreglu og saksóknurum beggja ríkja og að íslensk stjórnvöld tækju því af mikilli alvöru og legðu áherslu á góða samvinnu við namibísk stjórnvöld, hér eftir sem hingað til. Þetta var jákvæður og uppbyggilegur fundur og gagnlegt að heyra sjónarmið Nandi-Ndaitwah.“
„Nýkomið frá Gullfossi og Geysi og reiknar með að fá fund með ráðherra“
Síðdegis þennan dag, 7. júní, fundaði Nandi-Ndaitwah og sendinefnd hennar svo með Brynjari Níelssyni, aðstoðarmanni dómsmálaráðherra. Hún hafði óskað eftir að funda með Jóni Gunnarssyni, en kann komst ekki, og bauð fram Brynjar í sinn stað. Auk hans sátu fundinn, sem stóð yfir í rúma klukkustund, tveir skrifstofustjórar og einn staðgengill skrifstofustjóra fyrir hönd dómsmálaráðuneytisins.
Brynjar hefur ekki viljað upplýsa fjölmiðla um hvað fór fram á fundinum og sagði í færslu á Facebook í byrjun ágúst að hann myndi ekki gera það nema að hann væri viss um að Namibíumennirnir væru „sáttir við það“.
Í þeirri færslu sagði Brynjar að hann vissi ekki hvort fólkið hafi verið í embættiserindum eða hvort þau hafi litið á fundinn með sér sem óformlegan. „„Sjálfur held ég að það sé nánast óþekkt að fólk í embættiserindum banki upp á í stjórnarráðinu nýkomið frá Gullfossi og Geysi og reiknar með að fá fund með ráðherra. Í besta falli er hægt að kalla slíka fundi óformlega.“
Dómsmálaráðuneytið hefur neitað að greina frá innihaldi fundarins og afhenda minnisblöð af honum með vísan til upplýsingalaga. Fréttavefurinn Mannlíf, sem spurðist fyrir um málið, hefur skotið þeirri niðurstöðu til úrskurðarnefndar um upplýsingamál.
Athugasemd Brynjar vakti furðu
Þrátt fyrir þetta hefur ýmislegt spurst út um það sem fram fór á fundinum. Stundin greindi frá því 26. ágúst síðastliðinn að Brynjar hafi þar gert athugasemdir við að namibíski ríkissaksóknarinn, Martha Imalwa, hefði vísaði til Samherjamanna sem sakborninga (e. accused) á fundinum. Í umfjöllun Stundarinnar segir að „þessi athugasemd Brynjars mun hafa valdið nokkurri furðu hjá ríkissaksóknaranum namibíska og fylgdarliði hans, sem hafi gefið það sterkt til kynna eftir fundinn að þau hefðu talið hann tilgangslausan og lítið þótt til viðmælenda sinna koma.“
Þar sagði enn fremur að Namibíumönnum hafi þótt athugasemd Brynjars sérkennileg, enda liggi fyrir að fjöldi Samherjamanna hefur réttarstöðu grunaðra í rannsókn hér á landi og í Namibíu. „Namibískir fjölmiðlar hafa lýst því þannig að sendinefndin namibíska líti svo á að íslensk stjórnvöld hafi í raun hunsað þau með fundinum og tilraunum þeirra til að greiða fyrir framsali þriggja Íslendinga, sem bíða ákæru í Namibíu. Í forsíðufrétt dagblaðsins Namibian Sun eru stjórnvöld í Namibíu sögð allt annað en ánægð með viðbrögð íslenskra stjórnvalda og talað um að líta megi á það sem móðgun að íslenski dómsmálaráðherrann hafi ekki setið fundinn, heldur sent aðstoðarmann á fundinn í sinn stað. Innan namibískrar stjórnsýslu sé fólk því reitt yfir trakteringunum sem þeir telja sig hafa fengið hér á landi.“
Í svari við fyrirspurn Stundarinnar um málið sagði Brynjar þetta ekki rétta lýsingu á því sem fram fór á fundinum og neitaði því að hann hafi gert athugasemdir við orðalag ríkissaksóknarans. „Ég var hins vegar að reyna að átta mig á því hvaða stöðu mennirnir hefðu í þessari rannsókn úti í Namibíu. Hvort þeir hefðu verið kærðir? Hefðu réttarstöðu grunaðra? Eða hvernig það væri eiginlega. Ég var að reyna að átta mig á þessari stöðu,“ sagði Brynjar við Stundina.