Uppgangur skoska þjóðarflokksins frá aldarmótum hefur verið eitt mesta öskubuskuævintýri stjórnmálanna. Flokkurinn hefur náð hreinum meirihluta í Skotlandi, staðið fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu um sjálfstæði Skotlands og er nú stærsti stjórnmálaflokkur landsins þegar miðað er við skráða félaga. Flokkurinn var afar nærri því að ná sjálfstæðiskröfunni í gegn í atkvæðagreiðslunni þó vinsældir flokksins hafa raunar aldrei verið meiri en eftir að Skotar höfnuðu sjálfstæði í september. Síminn á skrifstofunum hringir stanslaust og á hinum endanum er fólk sem vill ganga í flokkinn.
Skotar fá einnig nokkur sæti á breska þinginu í Westminster, nánar tiltekið 59 sæti. Skoski þjóðarflokkurinn er í dag með sex af þessum 59 sætum. Skoðanakannanir sýna að fjöldi þeirra muni aukast til muna þegar kosið verður til breska þingsins á næsta ári. Þær bjartsýnustu sýna skoska þjóðarflokkinn með allt af 50 af 59 sætum, þótt flestir stjórnmálaskýrendur búist við því að niðurstaðan verði eitthvað hóflegri.
Sá sem stýrir skrifstofu skoska þjóðarflokksins í Westminster, er starfsmannastjóri hans þar, er hins vegar ekki Skoti. Hann er Kanadamaður og heitir Luke Skipper. Síðastliðinn tæpa áratuginn hefur hann verið lykilþáttakandi í ævintýralegum vexti stjórnmálaafls sem miðar að því að auka sjálfstæði, völd og áhrif þjóðar sem hann tilheyrir ekki.
Skipper er mikill Íslandsvinur og kemur reglulega hingað til lands. Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, settist niður með honum og fór yfir þetta tímabil, hvað sé framundan í skoskum stjórnmálum, hvar samvinnufletir Skota og Íslendinga liggja og hvernig Kanadamaður rambar inn í eina eldfimustu sjálfstæðisbaráttu Evrópu.