Nú þegar komið er fram á seinni part kjörtímabils ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar þá hlýtur það að vera mikið áhyggjuefni fyrir stjórnvöld, hversu illa þeim hefur tekist að skapa traust og ró á vinnumarkaði. Það var yfirlýst markmið ríkisstjórnarinnar, strax frá byrjun, að ná slíkri stöðu og vinna að sátt og samstöðu. Þetta hefur ekki tekist, og eru verkföllin ekki síst til marks um það. Opinberir starfsmenn eru í verkfalli þessa dagana, og óvissa um framhaldið.
Eins og mál standa nú, þegar ýmsar hagtölur sína jákvæða þróun, þá hefur fylgið fokið frá stjórnarflokkunum, einkum og sér í lagi Framsóknarflokknum. Hann mælist nú með 10,1 prósent fylgi en Sjálfstæðisflokkurinn 24,4 prósent. Eitt af því, sem vafalítið hefur grafið undan fylginu við ríkisstjórnarflokkanna er mikil óánægja með stöðu mála á vinnumarkaði.
En stjórnarflokkarnir þyrftu kannski einnig að reyna að greina hvað það er, sem veldur því að fólk treystir stjórnarflokkunum svona mikið verr nú, heldur en í byrjun kjörtímabilsins, og einnig hvers vegna eru svona harðar deilur á vinnumarkaði. Hugsanlega er það misskipting auðsins í landinu. Rótin að því pólitíska umróti sem hefur um margt einkennt tímann frá hruni fjármálakerfisins, kann að tengjast því atriði.