Háskólinn á Bifröst og íþróttafélagið Skallagrímur í Borgarnesi hafa gert með sér samning um Bifrastarstyrkinn svokallaða, en greint er frá samningnum á vef háskólans.
Í Bifrastarstyrknum felst að skólagjöld við Háskólann eru felld niður gegn því að leikmaðurinn leiki knattspyrnu með meistaraflokki Skallagríms á samningstímanum, sem er eitt skólaár eða samkvæmt nánara samkomulagi. Í umsókninni þarf að koma fram starfsferill, námsferill og knattspyrnuferill auk annarra þátta sem umsækjandi telur mikilvægt að komi fram, að því er segir í frétt á vef háskólans. Síðan er viðkomandi metinn og athugað hvort hann geti fengið styrkinn, og verið mikilvægur liðsmaður Skallagríms, sem nú leikur í B-riðli 4. deildar.
Umsóknir áhugasamra eiga að sendast á netfangið ivar@menntaborg.is fyrir 10. maí næstkomandi, að því er fram kemur á vef háskólans.
Ívar Örn Reynisson, formaður knattspyrnudeildar Skallagríms, og Vilhjálmur Egilsson rektor, gengu frá samningnum fyrir hönd háskólans og Skallagríms.