Rapparinn Kanye West lauk ræðu sinni á Video Vanguard-verðlaunahátíð MTV-sjónvarpsstöðvarinnar í gær á því að tilkynna um væntanlegt framboð sitt til embættis forseta Bandaríkjanna árið 2020. Samkvæmt frétt Time um málið eru skiptar skoðanir um hvort West hafi verið alvara með yfirlýsingunni eða hvort hann hafi verið að grínast.
West hefur verið ansi duglegur við að koma sér í sviðsljósið á undanförnum árum vegna neikvæðrar framkomu. Frægast var líkast til atvikið þegar hann rauk upp á svið á sömu hátíð árið 2009 eftir að Taylor Swift fékk verðlaun fyrir að hafa búið til besta tónlistarmyndband kvennlistamanns það árið. West þreif af henni míkrófóninn og lýsti því yfir að Beyoncé hefði átt að vinna þau.
Þau vatnaskil urðu nú, sex árum síðar, að Swift afhenti West heiðursverðlaun hátíðarinnar sem kennd eru við Michael Jackson. Swift hélt stutta ræðu þar sem hún talaði fallega um West og það sem hann hefði áorkað sem listamaður og í tískuheiminum. Sagði hún West hafa átt "einn stórkostlegasta feril sögunnar".
Í ræðu sinni fór West yfir skoðanir fólks á honum og sagði frá því að oft komist fólk að þeirri niðurstöðu að hann sé ekki jafn slæmur og af er látið eftir að hafa talað við hann. West ræddi einnig baráttu sína fyrir hag annarra listamanna og hvernig hans kynslóð ætti að kenna börnunum sínum að trúa á sig sjálf. Síðan sagði West: "Þetta snýst um hugmyndir bróðir (e. bro)! Nýjar hugmyndir! Fólk með hugmyndir, fólk sem trúir á sannleikann. Og já, eins og flest ykkar hafa líkast til giskað á, þá hef ég ákveðið að bjóða mig fram til forseta árið 2020".
West er giftur raunveruleikastjörnunni Kim Kardashian. Ef honum er alvara með framboði sínu, og ef hann ynni, þá yrði Kardashian forsetafrú Bandaríkjanna.
Hægt er að horfa á brot úr ræðum Swift og West á vef The Guardian.