Karl Axelsson hrl. hefur verið settur dómari við Hæstarétt frá 16. október og fram til 15. apríl á næsta ári. Hann leysir Viðar Má Matthíasson af en hann hefur fengið leyfi frá störfum til þess að skrifa bók um vátryggingarrétt.
Karl hefur áratugareynslu af lögmennsku og er einn eigenda lögmannsstofunnar LEX. Hann hefur auk þess kennt námskeið um eignarrétt við Háskóla Íslands frá 1992, en hann er dósent við lagadeildina, samkvæmt upplýsingum á vefsíðu LEX.
Karl hefur í gegnum tíðina tekið að sér margvísleg stór og viðamikil verkefni á sviði lögfræði, fyrir hið opinbera, einstaklinga og fyrirtæki. Hann hefur verið nokkuð áberandi í málflutningi undanfarin ár, meðal annars sem lögmaður Magnúsar Guðmundssonar, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings í Lúxemborg, en nokkur mál ákæruvaldsins gegn Magnúsi eru til meðferðar í dómskerfinu, þar á meðal er Al-Thani málið sem bíður þess að verða tekið fyrir í Hæstarétti. Það er á dagskrá síðari hluta janúarmánaðar á næsta ári en í héraði var Magnús dæmdur í þriggja ára fangelsi.
Að sögn Þorsteins Jónssonar, skrifstofustjóra Hæstaréttar, gilda almennar vanhæfisreglur um störf dómara og því mun Karl „að sjálfsögðu ekki“ koma með neinum hætti að málum þar sem hann hefur verið að gæta hagsmuna skjólstæðings.