Arion banka samstæðan gjaldfærði 494 milljónir króna á síðasta ári vegna kaupauka til ríflega hundrað starfsmanna. Þetta kemur fram í ársreikningi bankans. Greiðslur vegna kaupauka árið áður námu 78 milljónum króna.
Kaupaukakerfinu var komið á innan bankans á síðasta ári, í samræmi við reglur Fjármálaeftirlitsins, en kaupauki getur að hámarki numið 25 prósentum af heildarlaunum starfsmanns. Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, hefur lagt fram frumvarp á Alþingi sem veitir fjármálafyrirtækjum heimild til að hækka hlutfall kaupauka af launum upp í 100 prósent, að undangengnu samþykki hluthafafundar viðkomandi fyrirtækis.
Samkvæmt ársreikningi Íslandsbanka gjaldfærði bankinn 271 milljón króna vegna greiðslu kaupauka til starfsmanna á síðasta ári, borið saman við 68 milljónir árið áður. Íslandsbanki útvíkkaði kaupaukakerfi bankans á síðasta ári og nær það nú til um hundrað starfsmanna.
Hjá Landsbankanum er ekki við lýði sérstakt kaupaukakerfi, en ríkisbankinn verðlaunaði starfsmenn sína á síðasta ári með því að gefa þeim tæplega eitt prósent í bankanum í formi kaupauka. Gjörningurinn var liður í samkomulagi frá árinu 2009, um fjárhagsuppgjör milli gamla og nýja Landsbankans. Skattalegt verðmæti hlutabréfanna nam 4,7 milljörðum króna.