Kjarninn kynnir verkefni vikunnar hjá Karolina Fund, en þessa vikuna er það útgáfa bókarinnar „Hin hálu þrep,“ eftir Bjarna Bernharð. Við tókum höfundinn tali.
„Höfundarferill minn spannar yfir 40 ár, hófst 1975 með útkomu ljóðabókarinnar „Upp og ofan“. Síðan þá hef ég gefið út á þriðja tug ljóðabóka auk ljóðaúrvala, smásagnasafn, endurminninga og þýðinga á úrvali ljóða minn á ensku, í þýðingu Philips Roughton’s. Öll útgáfa mín er eiginútgáfa, ég valdi þá leið vegna þess „frelsis“ sem slíkt fyrirkomulag veitir. Síðustu 12 árin hef ég tekið mér stöðu á horni Pósthússtrætis og Austurstrætis þar sem ég hef boðið vegfarendum bækur til kaups.“
Þú ert að vinna að útgáfu bókarinnar Hin hálu þrep á Karolina Fund, hvers vegna ákvaðstu að fara leið hópfjármögnunar?
„Hin hálu þrep munu koma út um miðjan ágúst. Þar sem útgáfa bókarinnar er viðamikið verkefni vegna kostnaðar (mikið er lagt í bókina – hún er prýdd fjölda litljósmynda af málverkum mínum) ákvað ég að freista þess að safna fyrir prentkosnaði á Karolina Fund. Söfnunin hefur gengið vel og hef ég þegar náð 1600 evru markinu sem ég setti, er komin yfir 2000 evrur, það gefur mér færi á að stækka upplagið sem ég prenta, en ég hafði ráðgert að prenta 200 eintök fyrir 1600 evrurnar.“
Málverk eftir Bjarna.
Er bókin Hin hálu þrep eins konar sjálfsskoðun eða uppgjör og hvernig nýtirðu mismunandi form textans til þess?
„Hin hálu þrep er frásögn af lífshlaupi mínu (ég er fæddur 1950) og er að því leyti uppgjör. Ég á baki fortíð sem er einstök. Það segir frá barni sem verður fyrir einelti og skólakerfið hafnar. Uppvaxtarár mín og ofbeldisfullu hjónabandi, vimuefnaneyslu, geðsjúkdómi, manndrápi og veru á réttargeðdeild, en síðast en ekki síst hinni glæst endurreisn minni. Verkið er frásögn í fyrstu persónu, í raunsæisstíl, þá er þar að finna 22 persónuleg ljóð og hugrenningar höfundar með vísun til fortíðar og lýsingar á geðrofsköstum, sem eru skrifuð í þriðju persónu, skáletrað. Þá eru í bókinni 22 ljósmyndir af málverkum mínum. Ég hef lagt mikla vinnu í bókina og það hefur skilað sér í einstaklega vel heppnuðu ritverki. Margt af því sem fram kemur í bókinni mun fólki þykja hreinasta fjarstæða svo ósennilegt það virðist, en frómt frá sagt eru lýsingarnar í bókinn allar sannleikanum samkvæmt.“
Hér að neðan má svo lesa aðfaraorð bókarinnar, en hægt er að styrkja verkefnið hér.
Aðfaraorð
Minningar raðast ekki í tímaröð í undirvitundinni heldur eru þær í brotum, brotum sem hafa enga innbyrðis tengingu en samþættast í endurliti. Hugurinn er stöðugt að endurraða augnablikum jafnhliða því að skapa heildarmynd. Þræðir tímans togast á frá einu hólfi til annars í hugarheiminum og framkalla endurlifun. Vitundin er skip sem siglir á hvítum bárum tímaleysis, frjáls undan annmörkum tíma og rúms.
Mér varð fljótt ljóst að ef mér ætti að takast ætlunarverk mitt, að skrifa þessa bók, þá yrði ég að endurlifa sjálfan mig í þeim tíma sem atburðir gerðust og það yrði ekki átakalaust. Undanfarin ár hef ég ástundað heiðarlega sjálfskönnun, spurt mitt eigið sjálf um tilfinningaheim minn og sálarlíf. Og eins og við var að búast voru svörin misvísandi því að undirvitundin útskýrir reynsluheiminn með táknmyndum en það getur stundum verið þrautinni þyngra að lesa í slíkar myndir – en alla jafna: hinn innri maður lýgur ekki. Endurlitið var mér vissulega erfitt en um leið styrkti það mig og losaði um margar hugarflækjur.
Ég hef leitast við að forma hinar útmáðu línur fortíðar og láta myndbrotin raðast upp á hugartjaldinu, myndir jafnt frá barnæskunni og myrkustu tímum í lífi mínu. Kraftbirting undirvitundar tengir saman ytri og innri veruleika í endurteknum formum sem þó eru síbreytileg.
Lesandanum kann að virðast að myndirnar sem ég bregð upp í þessari sjálfsævisögu minni séu absúrd og ekki trúverðug innsýn í veruleikann, en svo ótrúlegar sem lýsingarnar í bókinni eru, vil ég árétta að í einu og öllu hefur hið sanna og rétta verið fært í letur.