Undir lok árs 1982 komu út fjórar LP plötur með einleik Manuelu Wiesler flautuleikari. Útgáfan vakti talsverða athygli á sínum tíma enda fáheyrt að fjórar plötur kæmu út með sama flytjanda á sama tíma – og allar hljóðritaðar á tveimur nóttum í Háteigskirkju.
Manuela gaf plöturnar út sjálf og seldi meðal annars á Miðbæjarmarkaðnum í Reykjavík. Þær seldust upp og hafa nú ekki verið fáanlegar um áratuga skeið. Manuela lést árið 2006 og þar sem hún stóð sjálf að útgáfunni hefur enginn sýnt þá framtakssemi að endurútgefa plöturnar á stafrænu formi, þar til nú, og fer söfnun vegna hennar fram á hópfjármögnunarsíðunni Karolina Fund. Tímasetningin þykir viðeigandi þar sem Manuela hefði orðið 60 ára í júlí síðastliðinn.
Kjarninn ræddi við Þórarinn Stefánsson, einn aðstandenda verkefnisins, um það.
https://soundcloud.com/thorarinn-1/orkell-kalais-synishorn01
xxxxxxxxxxx
Hver var Manuela Wiesler og hvers konar tónlist flutti hún?
"Manuela Wiesler fæddist í Brasilíu en foreldrar hennar voru austurrískir. Hún ólst upp í Vínarborg og lauk þar flautuprófi árið 1971. Síðar stundaði hún nám í París og víðar. Hún fluttist til Íslands árið 1973 og bjó hér í um áratug. Hún stofnaði Sumartónleika í Skálholtskirkju árið 1975, ásamt Helgu Ingólfsdóttur semballeikara, og kom þar iðulega fram, einkum í samleik með Helgu. Eftir að hún fluttist af landi brott kom hún oft fram á Sumartónleikunum og þá sem einleikari. Manuela bjó og starfaði um skeið í Svíþjóð en árið 1985 fluttist hún til Vínarborgar þar sem hún bjó að mestu til æviloka."
Manuela lagði sig einkum fram um að flytja samtímaverk en mörg helstu tónskáld Íslendinga sömdu fyrir hana tónverk auk fjölda erlendra tónskálda. Meðan Manuela bjó á Íslandi var hún mikil driffjöður í tónlistarlífinu hérlendis og gætti áhrifa hennar víða. Manuela kom auk þess víða fram í Evrópu, ekki síst á Norðurlöndunum en líka í Þýskalandi og á heimaslóðunum í Austurríki.
Ef litið er yfir þær hljómplötur og geisladiska sem Manuela hefur leikið inná kemur í ljós að fjölbreytni hefur einkennt verkefnaval hennar. Áberandi er norræn tónlist, ekki síst íslensk, en einnig japanskra og franskra tónskálda auk fjölda annarra ólíkra verka.
Það hefur verið sagt um Manuelu að þegar hún bar flautuna að vörum sér þá urðu þær eitt, hún og flautan."
https://soundcloud.com/thorarinn-1/marais-synishorn01
Endurútgáfa löngu tímabær
Hvað kom til að þið ákváðuð að endurútgefa verk hennar?
"Kvöld eitt við grúsk í gömlum hljómplötum kviknaði sú hugmynd hjá okkur Bjarna Rúnari Bjarnasyni tónmeistara að endurútgefa fjórar hljómplötur Manuelu sem áður höfðu komið út árið 1982 og hafa nú verið ófáanlegar um áratuga skeið. Við hlustun á gömlu plöturnar blasti það við okkur, að gæði spilamennskunnar og mikilvægi platnanna í heildar katalóg Manuelu væri þannig að endurútgáfa væri fyllilega réttlætanleg og löngu tímabær. Þar sem Manuela hefði orðið sextug nú í sumar fannst okkur tilvalið að nýta þau tímamót og hefjast handa.
Vinna við verkefnið hófst á síðasta ári og fólst, til að byrja með, aðallega í því að skipuleggja verkið, búa til einhvern tímaramma, finna góð eintök af plötunum fyrir yfirfærslu af LP yfir á CD, hefja hreinsun á upptökunum og koma þeim á tölvutækt form. Síðast en ekki síst þurfti að huga að fjármögnun og þar sem við vissum af fjölda einstaklinga sem gjarnan vilja heiðra minningu Manuelu og um leið gera hljómplöturnar aðgengilegar á ný á nútíma formati ákváðum við að leita til Karolina Fund sem farveg fyrir fjármögnunina. Söfnunin stendur nú yfir á karolinafund.com.
Til vinstri á myndinni er Þórarinn Stefánsson. Til hægri er Bjarni Rúnar Bjarnason tónmeistari.
Hverjir standa að þessu verkefni?
"Þórarinn Stefánsson sem á og rekur útgáfufyrirtækið Polarfonia Classics ehf. hefur heildar yfirsýn yfir útgáfuferlið, fjármögnunina og kynningarmál. Bjarni Rúnar Bjarnason tónmeistari sá um hljóðritun upprunalegu hljómplatnanna og sér um gerð endanlegs masters fyrir framleiðslu geisladiskanna. Hreinn Valdimarsson sér um yfirfærslu af LP plötu yfir á stafrænt form. Sigurður Ingvi Snorrason klarínettuleikari er fyrrverandi eiginmaður Manúelu og sér um samskipti við fjölskyldu Manúelu og rétthafa."