Ung ást er heimildarmynd byggð á endurminningum listamannsins Jóns Engilberts, sem skrifaðar voru af Jóhannesi Helga. Verið er að safna fyrir gerð myndarinnar á Karolina Fund. Kjarninn ræddi við leikstjóra myndarinnar, Birgittu Engilberts, um verkefnið.
Af hverju ertu að gera þessa mynd?
"Jón Engilberts er langafi minn. Mamma hefur alltaf frá því ég var lítil sagt mér sögur um hann og langömmu mína Tove Engilberts. Sögurnar hafa fylgt mér alla ævi og mig hefur lengi langað að gera kvikmynd um þær. Jón var þekktur listamaður og hefur málað fjölmargar myndir sem eru til hjá helstu listasöfnum Íslands í dag og víða um heim."
Byggð á Húsi Málarans
Á hverju byggið þið heimildamyndina?
"Myndin er að mestu byggð á bók Jóhannesar Helga um Jón Engilberts sem ber nafnið Hús Málarans. Bókin var gefin út árið 1961 og segir frá ævi Jóns og öllu því sem hann og Tove gengu í gegnum saman. Stór partur af myndinni er einnig viðtöl við fólk sem þekkti hann eða þekki til listar hans. Við styðjumst við ljósmyndir og video sem við eigum af Jóni og Tove. En einnig er hluti af myndinni teiknaður til að reyna að fanga stíl Jóns."
Hver er helsti þráðurinn í gegnum myndina?
"Þó þetta sé heimildarmynd um líf og list Jóns þá er rauði þráðurinn ástarsaga Jóns og eiginkonu hans Tove. Saga þeirra er ótrúlega falleg og áhugaverð og við fylgjum þeim í gegnum ótrúlegt lífskeið. Allt frá því að þau kynnast, síðan að hafa flúið með allt sitt til Íslands frá Danmörku í seinni heimstyrjöldinni, til að aðlagast lífi á Íslandi eftir stríð."