Tónlistarmennirnir og félagarnir Jón Ólafsson og Futuregrapher eru að hópfjármagna hljómplötu sem þeir hafa verið að vinna að undanfarið.
https://soundcloud.com/mollerrecords/naervera
Jón hefur verið áberandi á íslenska tónlistarsvíðinu síðastliðinn aldarfjórðung eða þar um bil. Hann er liðsmaður hljómsveitarinnar Nýdönsk auk þess sem hann hefur stjórnað upptökum hjá fjölda íslenskra listamanna á borð við Emilíönu Torrini, Megasi og fleiri á löngum ferli. Jón hefur einnig samið tónlist fyrir auglýsingar, leikhús og kvikmyndir og sent frá sér sólóplötur. Sumir þekkja hann einnig í gegnum ljósvakamiðla en Jón hefur starfað í útvarpi með hléum allt frá stofnun Rásar 2 árið 1983 auk þess að stýra sjónvarpsþáttum; m.a. þáttaseríunni Af fingrum fram.
Futuregrapher heitir líka Árni Grétar Jóhannesson. Hann sést hér með félaga sínum og samstarfsmanni, Köttaranum Jóni Ólafssyni.
Futuregrapher (sem heitir líka Árni Grétar Jóhannesson) er raftónlistarmaður sem hefur verið í fremstu röð raftónlistarsenunnar síðustu árin. Hann er einn aðstandenda raftónlistarútgáfunnar Möller Records ásamt þeim Bistro Boy og Steve Sampling. Futuregrapher hefur sent frá sér 2 hljómplötur, árið 2012 og 2014 sem hlutu einróma lof gagnrýnenda. Hann er eftirsóttur endurhljóðblandari (remixer) og hafa m.a. Ghostigital, Samaris og Ruxpin notið krafta hans.
Hann hefur samið tónlist í félagi við m.a. japanska listamanninn Gallery Six, teknósnillinginn Árna Vector, myndlistarmanninn Snorra Ásmundsson o.fl. Futuregrapher hefur og verið duglegur við tónleikahald bæði innanlands sem utan.
Kjarninn tók Jón Ólafsson tali til þess að fræðast nánar um innihald sveimplötunnar 'Eitt'.
Virkilega ánægðir með þetta módel
Þið eruð að hópfjármagna verkefni á Karolina Fund, segðu mér aðeins frá því?
"Árni Grétar (Futuregrapher) fjármagnaði framleiðslu á sólóplötu sinni, Skynveru í fyrra með góðum árangri og við ákváðum að fara sömu leið með þessa fyrstu plötu sem við gerum saman. Möller Records mun síðan sjá um að dreifa þessu fyrir okkur. Fjármögnunin hefur gengið mjög vel og við erum virkilega ánægðir með þetta módel."
Hvað kom til að þið ákváðuð að gera plötu saman?
"Ég hefur verið að dýfa tánum í raftónlistarvatnið á undanförnum mánuðum og í kjölfar þess skapaðist vinskapur milli okkar Árna en hann og fleiri hafa verið óþreytandi að mennta mig í heimi raftónlistarinnar. Á endanum ákváðum við að gera saman sveimplötu en það er fyribæri sem ég hef aldrei komið nálægt."
https://www.youtube.com/watch?v=uGLy62kIb4o
Fallegt, róandi og hugvíkkandi
Hvaðan kemur nafnið ‘Eitt’?
"Nafnið endurspeglar bæði samstöðu okkar Árna og einingu við gerð tónlistarinnar auk þess sem þetta er fyrsta platan okkar (Eitt)."
Þið komið svo til úr sitthvorum tónlistarheiminum, hvernig tónlist varð til við samruna þessara heima?
"Ég hef spilað á píanó síðan í barnæsku, bæði lært klassík og djass, þó ég hafi alla tíð einbeitt mér að popp- og rokktónlist. Það sem ég spila á píanóið er mjög mínímalískt og vonandi fallegt, róandi og hugvíkkandi. Árni bætti svo um betur og lagði undir þetta áhrifaríkan en smekklegan hljóðheim sem kemur bæði úr náttúrunni og rafmögnuðum hljóðfærum."