Kjarninn heldur áfram umfjöllun sinni um verkefni vikunnar hjá Karolina Fund. Vísnagull -Vísur og þulur fyrir börn í fangi er bók og geisladiskur sem innihalda 30 þulur og söngva fyrir minnstu börnin og er prýdd 26 splunkunýjum og litríkum málverkum.
Aðstandendur verkefnisins Vísnagull –Vísur og þulur fyrir börn í fangi eru dr. Helga Rut Guðmundsdóttir tónlistarfræðingur, Pétur Ben tónskáld og María Sif Daníelsdóttir (Mæja) myndlistarkona. Helga Rut er dósent í tónmennt á menntavísindasviði Háskóla Íslands en hún er einnig stofnandi Tónagulls námskeiða fyrir ung börn og foreldra. Pétur Ben er starfandi tónlistarmaður og hefur m.a. samið tónlist fyrir sviðsverk og kvikmyndir. Mæja er sjálfstætt starfandi myndlistarmaður sem málar bæði fígúru- og abstrakt málverk.
Við tókum viðtal við ritsjórann Helgu Rut Guðmundsdóttur.
Hvernig kviknaði hugmyndin að þessu verkefni?
„Hugmyndin kviknaði fyrir mjög löngu síðan. Ég hef haldið tónlistarnámskeið fyrir ung börn og foreldra í rúman áratug og fyrir þessi námskeið safnaði ég saman efni sem er að mestu leyti gamlar íslenskar þulur og söngvar. Mig langaði alltaf til að gefa þetta út í vandaðri bók sem væri með fallegum myndum. Það voru nokkur forlög búin að lýsa áhuga á að gefa þetta út, en mér fannst þau ekki nógu drífandi. Það stóð alltaf á því að finna heppilegan myndskreyti. Ég vildi að myndirnar væru ekki skrípalegar eins og í svo mörgum nýlegum barnabókum. Mig langaði að hafa þær mjúkar, litríkar og saklausar. Svo fann ég myndir eftir Mæju á netinu og bauð henni verkið en hún tók afskaplega vel í það. Samvinna okkar gekk ótrúlega vel og þá ákvað ég að gefa þetta bara út sjálf. Þess vegna erum við komin með söfnun á karolinafund.“
https://vimeo.com/131828967
Hvaðan koma vísurnar og þulurnar?
„Vísurnar og þulurnar koma að mestu úr munnlegri geymd og svo það sem safnað hefur verið saman á prenti síðustu áratugi fyrir börn. Þetta eru að mestu leyti vísur og söngvar sem fólk þekkir mjög vel úr sinni barnæsku. Ég valdi sérstaklega efni sem hentar til þess að leika með börn í fangi, eins og við gerum á námskeiðum Tónagulls. En í raun á ég miklu lengri lista með yndislegu efni sem bíður vonandi seinni tíma.“
https://soundcloud.com/tonagull-ehf
Er einhver rauður þráður í tónum og söng Vísnagulls?
„Það er skýr rauður þráður í þeirri vinnu sem við Pétur Ben lögðum í upptökurnar fyrir diskinn. Regla númer eitt var að það mátti ekki nota nein rafmögnuð hljóðfæri eða hljóðgerfla. Önnur regla var að útsetning mátti ekki skyggja á þuluna eða laglínuna. Það var því ákveðin naumhyggju fagurfræði sem stýrði vinnunni við diskinn. Í grunninn er þetta svo falleg arfleifð og einfaldleikinn þarf að fá að njóta sín án þess þó að allt hljómi eins. Stundum er undirleikur enginn eða kannski ein bjalla eða hrista. Svo notum við til dæmis píanó eða gítar til að skapa stemmningu en ekki hvort tveggja í einu. Hættan er að maður drekki öllu saman í útsetningaflóði. Einfaldleikinn er merkilega krefjandi viðureignar, en við erum afar sátt með útkomuna. Hvað sönginn og röddina varðar, þá reyndi ég að syngja eða fara með þulur eins og ég væri með barn hjá mér og forðaðist að nota of „lærða“ raddbeitingu þó ég hafi lært að syngja. Börn hlusta betur á raddir á háu tónsviði en ég nota samt frekar vítt raddsvið og syng stundum á dýpra raddsviði þegar okkur fannst það eiga betur við.“