Íslenska karlalandsliðið í fótbolta leikur við landslið Kasakstan í undankeppni EM á laugardaginn, en leikurinn fer fram í höfuðborginni Astana.
Leikurinn er gríðarlega mikilvægur fyrir íslenska landsliðið, sem situr í öðru sæti A-riðils með níu stig eftir bestu byrjun karlalandsliðsins í undankeppni EM í sögu landsliðsins. Kasakar sitja hins vegar á botni riðilsins með eitt stig.
Þrátt fyrir ólíka stöðu landsliðanna spara Kasakar engu til í að hita upp fyrir leikinn á laugardaginn. Nú er komið í dreifingu á samfélagsmiðlum ansi magnað myndband, sem greinilega hefur verið gert til að skapa stemmningu fyrir leiknum, þar sem mætast tveir stríðsmenn, annars vegar frá Kasakstan og hins vegar frá Íslandi. Myndbandið er birt á Facebook-síðu knattspyrnusambands Kasakstan.
Íslenski stríðsmaðurinn er í fullum víkingaklæðum, en svo koma þrumur og eldingar við sögu og öxi umbreytist í fótbolta. Sjón er sögu ríkari.
Hægt er að sjá hina dramatísku klippu hér að neðan.
Kasakar hugsa eflaust grínistanum Sacha Baron Cohen þegjandi þörfina, því vegna hins drepfyndna Borat, er hann oft og tíðum það fyrsta sem kemur upp í kollinn á þeim sem heyra minnst á Kasakstan.
Þar sem Borat röltir um æskustöðvarnar í Kasakstan í upphafi myndarinnar, gefur þó ekki rétta mynd af til að mynda höfuðborginni Astana, þar sem leikur Íslands og Kasakstan fer fram á laugardagskvöld.
Miðborg Astana, höfuðborgar Kasakstan.
Landið sem hefur gríðarlegar tekjur af olíuframleiðslu er mjög stéttaskipt. Þar eru yfirstétt, borgarastétt og lágstétt. Borgarastéttin þénar aðeins um 30.000 kr. mánaðarlega. Yfirstéttin býr einkum í fjallahéruðum, í risastórum húsum, en þénar þó einungis eins og millistéttarfólk í Evrópu. Lágstéttin býr við kröpp kjör í Kasakstan. Pípulagnir eru slæmar og íbúðir litlar. En það er ekki áalgeng sjón í bæjum Kasakstan. Hins vegar þykir höfuðborgin mjög nútímaleg, eins og áður segir.