Katharine Viner hefur verið ráðin ritstjóri The Guardian, en hún verður fyrsta konan til að gegna ritstjórastöðu hjá einu af stóru dagblöðunum á Bretlandseyjum. Þá er hún fyrsta konan sem ritstýrir Guardian, sem er er eitt af virtustu og útbreiddustu dagblöðum Bretlands. Fréttavefurinn Business Insider greinir frá ráðningunni.
Viner tekur við ritstjórastólnum af Alan Rusbridger, sem tilkynnti í desember mánuði síðastliðnum, að hann hugðist láta af störfum. Hann hefur gegnt ritstjórastöðu Guardian síðan árið 1995.
Viner hefur á undanförnum misserum starfað sem ritstjóri útgáfu Guardian í Bandaríkjunum, en hún hóf störf hjá blaðinu árið 1997, þá 26 ára gömul. Hún gegndi til skamms tíma ritstjórastöðu útgáfu Guardian í Ástralíu, en hún hleypti útgáfunni af stokkunum árið 2013.
Viner hlaut 53 prósent atkvæða starfsmanna á dögunum, þegar starfsfólk Guardian valdi þá sem það taldi best til þess fallið að taka við ritstjórastöðu blaðsins. Kosningin skilaði nafni Viner á lista yfir mögulega arftaka Rusbridger, og fór í starfsviðtal hjá eiganda Guardian, Scott sjóðnum.
Annar kandídat fyrir stöðuna var Ian Katz, ritstjóri Newsnight sjónvarpsþáttarins á BBC, en hann var aðstoðarritstjóri Guardian áður en hann gekk til liðs við breska ríkisútvarpið og hafði starfað meira en tuttugu ár hjá blaðinu.